
Kvennaár 2025 – Hvað hefur breyst? Hvað eigum við eftir?
Til að minnast baráttu formæðra okkar hefur Viska tekið saman nokkrar lykiltölur sem varpa ljósi á stöðu kvenna árið 1975 og í dag. Þær er að finna á sérstakri upplýsingasíðu: viska.is/kvennaar.
Þar má einnig finna hugleiðingar félagskvenna Visku um hvaða merkingu kvennafrídagurinn hefur fyrir þær sjálfar og samfélagið allt. Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir formaður Visku skrifar grein um ofbeldi á vinnustöðum og nauðsynleg verkfæri til að uppræta þá meinsemd. Katrín Björg Ríkarðsdóttir, sérfræðingur í kjaramálum hjá Visku, kynnir staðal um tíðaheilsu og tíðahvörf, verkfærakistu fyrir atvinnurekendur til að tryggja öruggt og gott vinnuumhverfi fyrir fólk á blæðingum eða sem er að ganga í gegnum breytingaskeiðið.
Til að sýna samstöðu og minna á mikilvægi jafnréttis hvetur Viska öll sem geta til að taka virkan þátt í kvennaverkfallinu. Samstöðufundur hefst á Arnarhóli kl. 15:00 þann 24. október, og auk þess verða haldnir fjölmargir aðrir viðburðir víða um land.
Nánari upplýsingar um dagskrá og viðburði er að finna á kvennaar.is.