
Túrverkir og hitakóf – má ræða það í vinnunni? Já endilega!
Tíðaheilsa er vinnumarkaðsmál
Í nýrri rannsókn Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands voru konur spurðar hvort þær hefðu einhvern tíma átt í erfiðleikum með að sinna starfi sínu vegna einkenna breytingaskeiðsins, svo sem skapsveiflna, hitakófa, svefnleysis, kvíða eða þreytu. Þrettán prósent svarenda sögðust oft hafa fundið fyrir einhverjum þessara einkenna, fjórðungur stundum, 23% sjaldan og tveir af hverjum fimm aldrei.
Erlendar rannsóknir segja svipaða sögu, allt að 10% kvenna íhuga að hætta að vinna vegna einkenna sem tengjast breytingaskeiði og einkenni tíðaheilsu kosta að meðaltali sex veikindadaga á ári.
Þetta er ekki bara heilsu- og velferðartengt vandamál heldur líka efnahagslegt. Þegar reynslumikið starfsfólk hverfur frá störfum tapar vinnustaðurinn þekkingu, samfellu og verðmætri reynslu. Það er því bæði mannúðlegt og skynsamlegt að skapa vinnuumhverfi sem styður við tíðaheilsu og breytingaskeið.
Staðall um tíðir, tíðaheilsu og breytingarskeið
Í Bretlandi hefur verið gefinn út staðallinn Menstruation, Menstrual Health and Menopause in the Workplace, leiðbeiningar sem hjálpa vinnustöðum að skapa betra umhverfi í tengslum við tíðir, tíðaheilsu og breytingaskeiðið. Staðallinn kom út árið 2023 og hefur verið sóttur af yfir 11.000 aðilum í 142 löndum. Það hefur þegar sýnt sig að staðallinn hefur stuðlað að opnari umræðu og markvissari stuðningi á vinnustöðum og þar með gert vinnustaði betri.
Staðallinn er hannaður fyrir vinnustaði af öllum stærðum og gerðum, en er ekki ætlaður til formlegrar vottunar á borð við hefðbundna gæðastjórnunarstaðla. Þess í stað veitir staðallinn hagnýtar leiðbeiningar hvernig jafnvel smávægilegar breytingar á vinnuumhverfi og viðmóti geta haft veruleg áhrif á vellíðan starfsfólks.
Staðallinn býður upp á fjölbreytt verkfæri í formi leiðbeininga, gátlista og sjálfsmatskvarða, sem styðja stjórnendur og mannauðsfólk í að nálgast málefnið af fagmennsku og virðingu. Hann auðveldar stefnumótun og er gagnlegt verkfæri í fræðslu og samtal um samskipti á vinnustaðnum þannig að öll geti notið sín í starfi, óháð hormónastigi.
Eflum tíðaheilsu á íslenskum vinnustöðum
Staðlaráð Íslands, með stuðningi stéttarfélagsins Visku, vinnur nú að þýðingu og útgáfu staðalsins út á íslensku. Markmið Visku með því að kosta þýðingu staðalsins er skýrt: Að stuðla að jafnrétti og velferð á vinnumarkaði. Tíðir, tíðaheilsa og breytingaskeiðið eru hluti af vinnuvernd og öryggi en ekki einkamál sem á að þegja yfir, bíta á jaxlinn og bölva í hljóði.
Þegar staðallinn um tíðir, tíðaheilsu og breytingarskeiðið kemur út á íslensku verður hann gerður aðgengilegur öllum, ókeypis og á rafrænu formi. Þetta er tímamótaverkefni sem miðar að því að færa umræðuna inn á vinnustaði þar sem hún á heima.
Eigum við að ræða um túrverki og breytingaskeiðið á vinnustað? Já, endilega!