Félagsstarf
Viska varð til við sameiningu þriggja stéttarfélaga árið 2023, en upphaf félagsstarfsins má rekja til grósku verkalýðshreyfingarinnar á eftirstríðsárunum.
Taktu þátt!
Félagsfólk er hjartað í starfi Visku og félagsfólk er hvatt til að taka þátt í starfi félagsins, hvort sem er að bjóða sig fram til trúnaðarstarfa eða taka þátt í fundum og námskeiðum á vegum félagsins.
Félagsfólk getur boðið sig fram til stjórnar Visku. Stjórn Visku er skipuð sjö félagsmönnum, formanni, sex aðalmönnum auk tveggja til vara. Formaður er kosinn sérstaklega á fjögurra ára fresti en stjórn er kosin til tveggja ára. Stjórn kýs sér varaformann og skiptir að öðru leyti með sér verkum.
Kosningar til trúnaðarstarfa innan félagsins eru rafrænar og skal opna fyrir þær minnst sjö dögum fyrir aðalfund. Til að stuðla að jafnri kynjaskiptingu í stjórn skal sá frambjóðandi sem flest atkvæði fær skipa fyrsta sæti í stjórn. Næsta sæti skipar sá frambjóðandi af öðru kyni sem flest atkvæði fékk o.s.frv. Þessi kynjaflétta skal halda áfram til röðunar varamanna. Niðurstöður kosninga eru kynntar á aðalfundi sem haldinn er á hverju ári fyrir lok apríl.
Kjaradeildir Visku sjá um kjara- og fræðslumál eftir fagsviðum og starfsvettvangi. Þær gæta hagsmuna síns félagsfólks og geta samið fyrir þeirra hönd.
Félagsfólki er heimilt að leggja fyrir aðalfund að stofnuð verði kjaradeild tengd fagsviði, starfsvettvangi eða landsvæði. Formaður kjaradeildar og tveir til fjórir aðalmenn í stjórn kjaradeildar eru kosnir til eins árs í rafrænum kosningum og eru niðurstöður kynntar á aðalfundi Visku.
Innan Visku er starfandi ein kjaradeild, Kjaradeild bókasafns- og upplýsingafræðinga.
Félagsnet Visku vinna að því að styrkja stöðu sinnar fagstéttar, efla tengslanet og stuðla að aukinni þekkingu og framþróun hver á sínu sérsviði.
Félagsfólki er heimilt að leggja fyrir stjórn Visku að stofnaður verði félagsnet til að styrkja stöðu tiltekinna hópa sem eru innan félagsins.
Innan Visku starfar fulltrúaráð sem er skipað formanni félagsins og fulltrúum starfandi kjaradeilda og félagsneta innan félagsins. Landssamband íslenskra stúdenta (LÍS) tilnefnir árlega fulltrúa í fulltrúaráð Visku.
Fulltrúaráð er stjórn félagsins til ráðgjafar í stefnumótandi málum og kemur saman minnst einu sinni á ári. Formaður félagsins er jafnframt formaður fulltrúaráðs.
Trúnaðarmaður er félagi í stéttarfélagi sem hefur verið tilnefndur af starfsmönnum eða félaginu sjálfu sem fulltrúi þess á vinnustað.
Trúnaðarmenn Visku eru virkir á fjölda vinnustaða út um land allt. Hafðu samband við skrifstofu félagsins til að fá upplýsingar hvort trúnaðarmaður sé starfandi á þínum vinnustað.
Vantar trúnaðarmann á þínum vinnustað? Hægt er að fá frekar upplýsingar og aðstoð við kosningu trúnaðarmanna hjá Visku með því að senda fyrirspurn á skrifstofu félagsins.