Persónuvernd
Ríkið sem vinnuveitandi, sveitarfélög og fyrirtæki á almennum vinnumarkaði vinna með persónuupplýsingar í tengslum við ráðningar, við framkvæmd fjölmargra þátta vinnusambandsins og við starfslok.
Persónuvernd er grundvallarréttur launafólks og lykilforsenda trausts í vinnusambandi. Í tengslum við ráðningu, launagreiðslur, skyldur í vinnusambandi og ýmis velferðarmál afhendir starfsfólk vinnuveitanda fjölbreyttar og oft viðkvæmar upplýsingar. Það er því afar mikilvægt að vinnsla slíkra upplýsinga sé ávallt gegnsæ, málefnaleg og byggð á skýrum lagagrundvelli.
Ísland fylgir reglum Evrópusambandsins um persónuvernd í krafti EES-samningsins. Reglugerð (ESB) 2016/679 (GDPR) og persónuverndarlög nr. 90/2018 setja heildstæðan ramma um réttindi einstaklinga og skyldur vinnuveitenda. Samkvæmt þessari löggjöf verður öll vinnsla persónuupplýsinga í starfsemi fyrirtækja og stofnana að byggjast á lögmætum grundvelli, svo sem samningi, lagaskyldu, lögmætum hagsmunum, samþykki eða öðrum skýrt afmörkuðum heimildarákvæðum.
Persónuvernd verndar einkalíf, dregur úr hættu á misnotkun upplýsinga og styrkir sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga. Hún styður jafnframt við markmið jafnréttis-, vinnuverndar- og stjórnsýslulöggjafar um öruggt, virðingarvert og heilbrigt starfsumhverfi þar sem réttindi starfsfólks eru virt.
Gögn þessi koma frá BHM, seinast uppfærð 2. desember 2025.