Vegna fráfalls
Höfundur
Katrín Björg Ríkarðsdóttir
Þegar andlát á sér stað þurfa ættingjar að huga að ýmsum praktískum málum til viðbótar við að takast á við sorg og missi. Sjúkrasjóður og Styrktarsjóður BHM greiða dánarbætur vegna andláts félagsfólks Visku og einnig getur félagsfólk sótt um dánarbætur vegna fráfalls barns, andvana fæðingar eða fósturláts. Þá tryggja kjarasamningar ákveðinn rétt eftirlifandi maka. Auk þess er ástæða til að kanna hvort réttindi séu fyrir hendi hjá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóðum.
Sjóðirnir greiða allt að 350.000 kr. til erfingja. Í 11. grein úthlutunarreglna er fjallað um dánarbætur. Til að nýta réttindi þarf að sækja um innan tilskilinna tímamarka og veita nauðsynleg gögn. Ef óskað er nánari útskýringa eða aðstoðar er mælt með því að hafa samband við ráðgjafa Visku.
Sótt er um á Mínum síðum BHM
Bætur eru greiddar í eftirfarandi tilvikum:
- Við fráfall núverandi sjóðfélaga.
- Við fráfall fyrrum sjóðfélaga, ef andlát á sér stað innan tveggja ára frá starfslokum.
- Við fráfall barns sjóðfélaga, yngra en 18 ára.
- Í eftirfarandi tilvikum tengdum meðgöngu:
- Andvana fæðing barns eftir 22. viku meðgöngu.
- Fósturlát eftir 18. viku meðgöngu.
Réttur til dánarbóta fellur niður ef ekki er sótt um greiðslur innan 24 mánaða frá dánardegi sjóðfélaga.
Rétthafar bóta:
- Við fráfall sjóðfélaga: Greiðslur fara til lögerfingja.
- Við fráfall barns sjóðfélaga: Greiðslur fara til foreldris.
- Við andvana fæðingu eða fósturlát: Greiðslur fara til foreldris.
Tímabundið framfærslutap maka/sambúðarmaka er einnig bætt.
- Greiðslan jafngildir einum mánaðarlaunum hins látna, að hámarki 713.000 kr.
- Hálf mánaðarlaun eru greidd vegna barns eða barna hins látna undir 18 ára aldri.
Foreldrar sem verða fyrir því áfalli að missa barn, missa fóstur eftir 18 vikna meðgöngu eða fæða andvana barn eftir 22 vikna meðgöngu eiga rétt á sorgarleyfi í samræmi við lög þar um. Tilgangur laganna er að tryggja foreldrum á innlendum vinnumarkaði svigrúm til sorgarúrvinnslu. Nánari upplýsingar um sorgarleyfi er að finna á vef Vinnumálastofnunar.
Samkvæmt kjarasamningum getur maki látins starfsmanns átt rétt á greiðslu launa hins látna eða fengið dánarbætur. Þetta fer eftir því hvort viðkomandi starfaði hjá hinu opinbera eða á almennum markaði.
Ríkið, Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög
Maki látins starfsmanns fær greidd laun hans fyrir mánuðinn sem hann lést í hafi hann verið við störf þann mánuð og ekki tæmt rétt til launa í veikindum. Einnig eru greidd föst laun í þrjá mánuði.
Sjá nánari skýringar í kafla 12.5 í kjarasamningi Visku við ríkið, kafla 11.4 í kjarasamningi Visku við Reykjavíkurborg og kafla 12.5 í kjarasamningi Visku við önnur sveitarfélög.
Samtök atvinnulífsins og Félag atvinnurekenda
Kjarasamningar Visku við annars vegar Samtök atvinnulífsins og hins vegar Félag atvinnurekenda eru samhljóða þegar kemur að dánarbótum.
Þar kemur fram að ef ráðningarsamningur kveður ekki á um dánar-, slysa- og örorkutryggingar þá gildi ákvæði kjarasamnings en skv. honum tryggir atvinnurekandi launafólk, sbr. kafla 4.10. Þá er einnig fjallað um dánarbætur í grein 4.10.7 í kjarasamningnum en skv. henni eru eftirlifandi maka greiddar slíkar bætur.
TR greiðir dánarbætur vegna makamissis, þ.e. við andlát maka geta ekkjur eða ekklar öðlast rétt til greiðslna á dánarbótum. Við ákveðnar aðstæður getur eftirlifandi maki átt rétt á framlengdum dánarbótum.
Einstaklingar gætu einnig átt rétt á að sækja um barnalífeyri, barnalífeyri vegna náms, mæðra- og feðralaun og heimilisuppbót.
Við andlát er mikilvægt að kanna rétt hins látna einstaklings hjá lífeyrissjóðum en þeir eru misjafnir að uppbyggingu:
- Sumir byggja eingöngu á samtryggingu.
- Aðrir blanda saman samtryggingu og séreign.
- Hlutfall séreignar getur verið mismunandi eftir sjóðum og leiðum.
Séreignarsjóður
Við andlát rennur inneign séreignarsjóðs rennur til maka og barna.
Skipting séreignar:
- Hjúskaparmaki (giftur): 2/3.
- Börn: 1/3.
- Ef ekki er maki eða börn rennur séreignarsjóður rennur til dánarbúsins og erfingja.
- Í óskiptu búi er séreignarsjóði skipt þrátt fyrir að maki sitji eftir í óskiptu búi.
Makalífeyrir (Samtryggingarsjóður)
Greiðslur til eftirlifandi maka:
- Makalífeyrir greiðist til eftirlifandi maka við andlát sjóðfélaga.
- Fjárhæð er venjulega helmingur uppsafnaðra réttinda sjóðfélaga.
- Mánaðarlegar greiðslur að lágmarki tvö ár.
Við sérstakar aðstæður:
- Börn á framfæri: Óskertur makalífeyrir greiddur þar til yngsta barnið verður 18 ára (eða lengur hjá sumum sjóðum).
- Örorka maka: Ef eftirlifandi maki er öryrki og yngri en 67 ára, greiðist óskertur makalífeyrir meðan örorkan varir.
Langtímagreiðslur:
- Hjá sumum sjóðum er makalífeyrir greiddur lengur, jafnvel til æviloka.
- Hann fellur þó niður ef makinn gengur í hjónaband á ný eða stofnar til sambúðar.
Athugið að skilmálar geta verið breytilegir eftir sjóðum og því er mikilvægt að kynna sér reglur viðkomandi lífeyrissjóðs. Hægt er að leita upplýsinga hjá sjóðunum sjálfum til að fá nánari skýringar.
Ef sjóðfélagi er í B-deild hjá LSR eða Brú þá gilda allt aðrar reglur um samtryggingu.
- Makalífeyrir er þá helmingur uppsafnaðra réttinda og 200.000 kr. að auki.
- Mánaðarlegar greiðslur eru greiddar á meðan maki sjóðfélaga er á lífi.
Viska hvetur félagsfólk til að leita upplýsinga hjá sínum lífeyrissjóði.
Sum sveitarfélög veita afslátt af fasteignaskatti ef veruleg breyting hefur orðið á högum fólks, t.d. vegna tekjutaps eftir fráfall maka. Viska hvetur félagsfólk til að kanna stöðuna í sínu sveitarfélagi.
Eftirlifandi maki getur nýtt skattkort hins látna í 9 mánuði frá andlátsmánuði.