Viska og Djøf í formlegt samstarf
Höfundur
Gauti Skúlason
Viska og stéttarfélagið Djøf í Danmörku hafa undirritað samkomulag um samstarf í þjónustu við félagsfólk.
Þessa dagana er unnið að því að formgera samstarf Visku við sambærileg stéttarfélög á öllum Norðurlöndunum en hugmyndin að baki Visku byggir á norrænum fyrirmyndum og félagið leggur ríka áherslu á að nýta sér reynslu erlendra stéttarfélaga þegar kemur að því að þróa þjónustu og hagsmunagæslu fyrir félagsfólk.
Fyrir er Viska með samstarfssamninga við norska stéttarfélagið Samfunnsviterne, sænska stéttarfélagið Akavia og finnska stéttarfélagið YKA sem kveða á um gagnkvæma þjónustu við félagsfólk við flutning á milli þessara landa og Íslands. Þannig getur félagsfólk Visku sem flytur til þessara landa nú nýtt sér þjónustu þessara systurfélaga Visku og fengið upplýsingar og aðstoð við vinnumarkaðstengd mál. Einnig var ákveðið að efla formlegt samstarf félaganna með reglulegri upplýsingamiðlun og ráðgjöf varðandi þróun þjónustu við félagsfólk.
Félagsfólk Djøf telur 111 þúsund manns sem starfa bæði á opinberum og almennum vinnumarkaði. Í félaginu er fjölbreyttur hópur fagfólks og stjórnenda með akademískan bakgrunn á sviði félagsvísinda. Félagsfólk Visku sem hyggur á flutning til Danmerkur, hvort sem er í nám eða starf, getur nú haft samband við skrifstofu Visku og fengið frekari upplýsingar.