Beint í efni
viska_undirritun_29052024
Fréttir

Viska und­ir­rit­ar fyrsta nor­ræna sam­starfs­samn­ing­inn

Höfundur

Gauti Skúlason

Gauti Skúlason

samskipti og markaðsmál

Viska og stéttarfélagið Samfunnsviterne í Noregi hafa undirritað samkomulag um samstarf í þjónustu við félagsfólk.  

Síðastliðinn miðvikudag undirrituðu Georg Brynjarsson framkvæmdastjóri Visku og Gunn Elisabeth Myhren, framkvæmdastjóri norska stéttarfélagsins Samfunnsviterne, samkomulag sem kveður á um gagnkvæma þjónustu við félagsfólk við flutning á milli landanna tveggja. Þannig getur félagsfólk Visku sem flytur til Noregs nú nýtt sér þjónustu þessa systurfélags Visku og fengið upplýsingar og aðstoð við vinnumarkaðstengd mál. Einnig var ákveðið að efla formlegt samstarf félaganna með reglulegri upplýsingamiðlun og  ráðgjöf varðandi þróun þjónustu við félagsfólk. 

Samfunnsviterne var stofnað í núverandi mynd árið 1994 sem stéttarfélag félagsvísindafólks. Félagsfólk er nú tæplega 20 þúsund talsins og er félagið það stærsta sinnar tegundar í Noregi, með skrifstofur í Osló og tengiliði víða á landsbyggðinni.  

 Við stofnun Visku var sérstaklega horft til reynslu sambærilegra stéttarfélaga sérfræðinga á Norðurlöndunum. Félagið hefur átt í góðu samstarfi við fjölda stéttarfélaga á Norðurlöndunum og undirritun samstarfssamninga markar þannig formgerð þessa samstarfs.  

 „Það er sérstaklega ánægjulegt að hefja þessa vegferð á norrænu samstarfi með frændum okkar í Noregi. Það eru heilmikil verðmæti fyrir okkur í Visku að fá að nýta okkur reynslu norrænna stéttarfélaga. Ég hlakka til samstarfsins við Gunn Elisabeth og félaga hennar í Samfunnsviterne,“ segir Georg Brynjarsson framkvæmdastjóri Visku. 

 Viska hefur nú tekið fyrsta skrefið í að byggja upp norrænt tengsla- og þjónstunet. Undirritun sambærilegra samninga á öllum Norðurlöndunum er í burðarliðnum og þannig vill Viska koma til móts við félagsfólk sitt sem hyggst starfa á norrænum vinnumarkaði.