Viska og Akavia í formlegt samstarf
Höfundur
Gauti Skúlason
Viska og stéttarfélagið Akavia í Svíþjóð hafa undirritað samkomulag um samstarf í þjónustu við félagsfólk.
Þessa dagana er unnið að því að formgera samstarf Visku við sambærileg stéttarfélög á öllum Norðurlöndunum en hugmyndin að baki Visku byggir á norrænum fyrirmyndum og félagið leggur ríka áherslu á að nýta sér reynslu erlendra stéttarfélaga þegar kemur að því að þróa þjónustu og hagsmunagæslu fyrir félagsfólk.
Á dögunum undirritaði Viska samkomulag við norska stéttarfélagið Samfunnsviterne sem kveður á um gagnkvæma þjónustu við félagsfólk við flutning á milli landanna tveggja. Þannig getur félagsfólk Visku sem flytur til Noregs nú nýtt sér þjónustu þessa systurfélags Visku og fengið upplýsingar og aðstoð við vinnumarkaðstengd mál. Einnig var ákveðið að efla formlegt samstarf félaganna með reglulegri upplýsingamiðlun og ráðgjöf varðandi þróun þjónustu við félagsfólk.
Nú hefur Viska gert sambærilegan samstarfssamning við stéttarfélagið Akavia í Svíþjóð. Félagið er það stærsta sinnar tegundar með ríflega 140 þúsund félagsmenn og hefur verið frumkvöðull á sviði þjónustu og trygginga fyrir sitt félagsfólk. Félagsfólk Visku sem hyggur á flutning til Svíþjóðar, hvort sem er í nám eða starf, getur nú haft samband við skrifstofu Visku og fengið frekari upplýsingar.