Frambjóðendur til stjórnar Visku
Opnað hefur verið fyrir kosningar til stjórnar Visku og standa þær opnar þangað til 16. apríl kl. 12:00 á hádegi.
Félagsfólk getur skráð sig inn með rafrænum skilríkjum og greitt atkvæði með því að smella hér.
Frambjóðendur
17 aðilar bjóða sig fram til þess að gegna stöðu 6 aðalmanna í stjórn og tveggja varamanna. Hver og einn félagi hefur allt að sex atkvæði. Þau þrjú sem eru efst í stjórnarkjöri skulu kosin til tveggja ára, næstu þrjú til eins árs og næstu tvö þar á eftir eru varamenn til eins árs. Athugið að til að stuðla að jafnri kynjaskiptingu þá er um fléttukosningu að ræða, sjá nánar í 10. gr. laga Visku.
Ég er 35 ára, tveggja barna faðir búsettur í Hafnarfirði og er á lokametrunum í meistaranámi í tómstunda- og félagsmálafræði. Ég hef starfað lengi innan frístundageirans og hef brennandi áhuga á fagmennsku, fræðslu og réttindum háskólamenntaðra sérfræðinga. Ég er formaður Félags fagfólks í frístundaþjónustu og hef einnig verið varamaður í stjórn Fræðagarðs, sem var forveri Visku. Sú reynsla hefur gefið mér innsýn í starfsemi stéttarfélaga, samningamál og hagsmunabaráttu, sem ég tel að nýtist vel í stjórn Visku. Í dag starfa ég sem forstöðumaður Garðahrauns, sértækrar félagsmiðstöðvar, þar sem ég vinn náið með fjölbreyttum hópum. Þar hef ég öðlast dýrmæta reynslu í stefnumótun, leiðtogahlutverki og skipulagi, sem ég vil nýta í þágu félagsmanna Visku. Ég býð mig fram sem stjórnarmaður og hlakka til að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu félagsins ef mér verður treyst fyrir því hlutverki.
Hefur dregið framboð sitt til baka.
Ég heiti Dóra Magnúsdóttir og býð mig fram til setu í stjórn Visku. Ég vil láta gott af mér leiða gegnum félagsstarf, eins og ég hef gert á liðnum árum. Oft er talað um fjölmiðla sem fjórða valdið en í mínum huga er stéttarfélagsbarátta fimmta valdið. Ég tel mögulegt að hafa raunveruleg áhrif á samfélagið með virkri þátttöku stéttarfélaga.
Ég sat í stjórn VR í sex ár, frá 2014 til 2020 og sinnti þar ábyrgðarstörfum í ýmsum nefndum, þ.m.t. sem formaður sjúkrasjóðs VR. Ég sat um hríð í stjórn Félags leiðsögumanna, sem nú hefur sameinast VR. Ennfremur hlaut ég kosningu sem varaborgarfulltrúi hjá Reykjavíkurborg árið 2014 og 2018 og var í því hlutverki, bæði sem vara- og borgarfulltrúi í átta ár, og sinnti trúnaðarstörfum í fjölmörgum nefndum á vegum borgarinnar. Gegnum tíðina hef ég sinnt blaðamennsku, markaðssetningu, almannatengslum og leiðsögn og starfa nú sem samskiptastjóri hjá Hafrannsóknastofnun. Ég hef lokið fjórum námsleiðum á háskólastigi; landfræði (B.Sc, HÍ), fjölmiðlafræði (diploma, HÍ), markaðs- og viðskiptafræði (medieøkonom, DK) og opinberri stjórnsýslu (MPA, HÍ). Ég er gift Guðmundi, sem er kennari í Tækniskólanum, og á fimm börn á aldrinum 15 – 30 ára og hef því skoðanir á flestu sem við kemur ungu fólki.Kynningarefni
Kæra félagsfólk Visku,
Ég heiti Eðvald Einar og ég býð mig fram til stjórnarsetu í Visku. Ég hef sinnt stjórnarsetu frá árinu 2020, fyrst hjá Fræðagarði og svo hjá nýstofnaðri Visku. Ég hef sinnt ýmsum störfum hjá félaginu í gegnum tíðina m.a. gjaldkerastörfum og ýmsum nefndarstörfum í þágu félagsins. Ég hef víðtæka háskólamenntun og námslán á bakinu, ég starfaði í 17 ár sem sérfræðingur hjá umboðsmanni barna og starfa nú sem aðstoðarstjórnandi hjá Landspítalanum. Það er stórt skref að fara úr fámennri stofnun og yfir í stærsta vinnustað landsins en það hefur veitt mér góða yfirsýn yfir mismunandi áherslur stofnana m.a. tengt kjaramálum og stofnanasamningum, sem nauðsynlegt er að búa yfir þegar stjórnasetu í stéttarfélagi er sinnt. Félagsfólk á að vera meðvitað um sín réttindi og nauðsynlegt að því sé veitt fræðsla um réttindamál og þá þjónustu sem Viska veitir sínu félagsfólki. Ég þekki þarfir mismunandi hópa háskólamenntaðs starfsfólks og vil halda áfram að leggja mitt af mörkum til þess að starfsemi Visku sé sterk og að félagið vinni í ykkar þágu.Það er von mín að ég fái tækifæri til að nýta mína reynslu og drifkraft áfram í þágu félagsins og leita því eftir ykkar stuðningi.
Kynningarefni
Ég býð mig fram til stjórnar Visku með einlægan áhuga á að leggja mitt af mörkum til félagsins og þess fjölbreytta hóps sérfræðinga sem það stendur fyrir. Ég tel mikilvægt að stéttarfélag sé virkur bakhjarl félagsfólks og vil taka þátt í því að efla það starf með skýrri, mannlegri og lausnamiðaðri nálgun.
Ég starfa sem sérfræðiráðgjafi hjá InfoMentor þar sem ég styð við fólk í og við menntakerfið, þar á meðal skólastjórnendur, starfsfólk, foreldra og nemendur. Áður hef ég starfað meðal annars í ýmiss konar velferðarþjónustu, opinberu eftirliti og öryggi, við bókhald og í ólíkum þjónustustörfum hjá bæði litlum og stórum fyrirtækjum í opinberum og einkareknum geira. Í gegnum þau störf hef ég öðlast dýrmæta innsýn í hvernig þjónusta hefur áhrif á líf fólks, bæði þegar hún nær markmiði sínu og þegar hún gerir það ekki.
Ég er með BA-próf í félagsráðgjöf og stunda nú meistaranám í Stjórnun og hönnun þjónustu við Háskóla Íslands. Þar dýpka ég skilning minn á þjónustuferlum, mannlegum þáttum í breytingastarfi og mikilvægi heildrænnar sýnar. Ég er tilbúin að hlusta, læra og taka virkan þátt í því að styðja við félagsfólk Visku.
Kynningarefni
Frekari upplýsingar um menntun og starfsreynslu má finna á LinkedIn.
Ég heiti Eydís Inga Valsdóttir og starfa sem teymisstjóri og sérfræðingur hjá Mennta- og menningarsviði Rannís. Þar sé ég um verkefni tengd framkvæmd alþjóðlegra menntaáætlana. Ég fór í framhaldsnám í Svíþjóð og starfaði þar lengi m.a. sem sérfræðingur hjá Sænska háskólaráðinu og verkefnastjóri hjá Norræna félaginu. Ég hef mikla reynslu af verkefnastjórnun á sviði mennta- og menningarmála og umsýslu sjóða. Ég hef alltaf sinnt félagsstörfum, en ég var m.a. formaður Ungmennadeildar Norræna félagsins í Uppsala og sat í stjórn félagsins á landsvísu. Auk þess hef ég sinnt trúnaðarstörfum á fyrri vinnustöðum og er nú trúnaðarmaður hjá Rannís.
Ég vil bjóða fram krafta mína í stjórn Visku, en ég hef mikinn áhuga á að beita mér fyrir því að bæta kjör og líf félagsmanna okkar, sem og að leggja mitt af mörkum til að sjá til þess að menntun verði metin að verðleikum á Íslandi. Félagsmenn Visku sinna mikilvægum störfum á öllum sviðum samfélagsins og ég vil beita mér fyrir því að Viska verði áfram öflugur málsvari fyrir þennan fjölbreytta hóp sem á stóran þátt í því að Ísland sé samkeppnishæft land og að hér sé gott að búa.
Kynningarefni
Ég heiti Guðjón Hauksson og gef kost á mér í stjórn Visku. Ég er menntaður í félagsfræði og kynjafræði og hef starfað sem sérfræðingur hjá Hagstofu Íslands frá árinu 2005. Ég hef verið trúnaðarmaður á Hagstofunni, fyrst fyrir Félag íslenskra Félagsvísindamanna og svo Visku. Ég var kosinn sem varamaður í stjórn FÍF árið 2022 og tók virkan þátt í mótun félagsins sem nú er Viska. Ég tel að það hafi verið mikið gæfuskref fyrir félagsmenn að stofna Visku og langar að leggja mitt af mörkum við mótun þessa nýja stéttarfélags á næstu árum.
Það þarf að hefja undirbúning næstu kjaraviðræðna strax, þar sem við þurfum að leggja upp með að jafna kjör á mörkuðum sem og að víkka út veikindaréttindi þannig að þau nái einnig til nánustu ættingja, s.s. maka, eldri barna og foreldra. Einnig þarf félag eins og Viska að vinna öflugt starf fyrir sjálfstætt starfandi félagsmenn sem oft þurfa annars konar stuðning á vinnumarkaði en hefðbundið launafólk.
Ég vil nota reynslu mína sem trúnaðarmaður á stórum vinnustað auk getu minnar til að vinna með og lesa úr gögnum til þess að bæta kjör og réttindi félagsfólks Visku.
Ég heiti Haukur Logi Jóhannsson og býð mig fram í stjórn Visku.
Ég býð mig fram til stjórnarsetu vegna þess að ég vil leggja mitt af mörkum til að bæta starfsskilyrði fólks með háskólamenntun. Ég trúi á þrennt: að hugsa fram í tímann, standa fyrir jafnrétti og bera ábyrgð á því sem maður gerir.
Við þurfum að horfa heildstætt á aðstæður fólks á vinnumarkaði. Þar skiptir máli að styðja við heilsu og vellíðan, skapa sveigjanleika í vinnuumhverfi og tryggja tækifæri til símenntunar alla starfsævina. Það er grundvöllur þess að fólk geti vaxið í starfi og fundið jafnvægi milli vinnu og einkalífs.
Gervigreind er að breyta vinnumarkaðnum hratt. Við þurfum að passa að menntað fólk verði ekki skilið eftir í þeirri tækniþróun. Tækifærin eru mörg en aðeins ef við stöndum saman og mótum skýra stefnu um hvernig við notum þessar tæknibreytingar okkur í hag.
Við þurfum líka að styrkja tengslin milli háskólamenntunar og atvinnulífs. Ég vil sjá betri yfirsýn yfir þróun starfa, meiri stuðning við nýsköpun og skýrari farvegi fyrir sérfræðinga sem vilja breyta til, fara í frumkvöðlastarf eða snúa aftur í nám. Þekking á að nýtast, ekki rykfalla.
Ég óska eftir ykkar stuðningi.
Kynningarefni
Ég býð mig fram til stjórnarsetu í Visku vegna brennandi áhuga míns á réttindum og kjörum starfandi fólks, jafnt á opinberum sem almennum vinnumarkaði, sjálfstætt starfandi sem launþegum. Mér er umhugað um stöðu allra slíkra réttinda um þessar mundir og er sannfærð um að mín rödd, reynsla og yfirveguð glöggskyggni skipti miklu máli í stjórn stóra og öfluga stéttarfélagsins okkar. Ég sat í stjórn Fræðagarðs árin 2022-23 og árið 2024 tók ég sæti í stjórn Visku. Ég tel að á þessum tíma hafi ég varpað ljósi á ýmis mál sem skipt hafa verulegu máli fyrir bæði þróun og áherslur félagsins, sett fram nýjar hugmyndir í starfseminni sem og veitt aðhald í eftirliti og rekstri. Síðastliðin tvö ár hef ég einnig setið í stjórn Orlofssjóðs BHM sem um leið er orlofssjóður Visku. Ég tel að orlofssjóðurinn og sú þjónusta sem hann býður sé og eigi að vera einn mikilvægasti þátturinn í starfsemi stéttarfélaga. Þar þarf að vera manneskja með skýra sýn sem byggir á þjónustu við allt félagsfólk og ráðstöfun eigna á sem sanngjarnastan hátt, og hana tel ég mig ótvírætt hafa.
Ég væri þakklát fyrir atkvæði þitt og lofa að láta gott af mér leiða fyrir okkur öll.
KynningarefniIngibjörg heiti ég en er kölluð Inga. Ég er 32 ára og er fædd og uppalin í Laugardalnum. Ég er með BA í sagnfræði frá Háskóla Íslands, MA í nútímasagnfræði frá Durham háskóla í Bretlandi, með áherslu á helfararfræði, og diplómu í upplýsingafræði með áherslu á skjalastjórnun frá Háskóla Íslands. Ég hef starfað við skjalastjórnun í 10 ár og starfa í dag sem sérfræðingur í upplýsingastjórnun á Þjónustu- og nýsköpunarsviði hjá Reykjavíkurborg. Ég starfaði áður sem skjalastjóri hjá Eflingu stéttarfélagi og kynntist þar mikilvægi stéttarfélaga gagnvart félagsfólki sínu.
Ég hef setið í ýmiss konar stjórnum, m.a. sat í stjórn Bókasafns Dagsbrúnar og var formaður stefnu- og málefnanefndar hjá Pírötum. Ég hef gífurlegan áhuga á mannréttindamálum, jafnréttindamálum og verkalýðsmálum. Ég tel nú kjörið tækifæri fyrir Visku að stíga fram sem leiðandi afl innan BHM og annarra stéttarfélaga sem afl sem berst fyrir bættum kjörum fyrir félagsfólk sitt, hvort sem það á við um námslán, kjaramál eða húsnæðismál. Ég býð mig fram til að taka þátt í þeirri uppbyggingu og tel mig hafa atorkuna og metnaðinn til að berjast fyrir réttindum okkar félagsfólks.
Kynningarefni
Ég heiti Íris Halla Guðmundsdóttir og hef ákveðið að bjóða mig fram til áframhaldandi stjórnarsetu fyrir Visku og óska eftir stuðningi ykkar. Ég hef mikinn áhuga á því að bæta kjör og réttindi okkar félagsmanna og mun beita mér í þeim efnum. Menntun mín er BA-próf í Uppeldis- og menntunarfræðum og MA-próf í Náms- og starfsráðgjöf og bætti ég svo við mig MA í Mannauðsstjórnun árið 2022. Ég hef unnið hjá Vinnumálastofnun síðustu 13 ár og hef víðtæka reynslu af ýmiss konar störfum innan hennar svo sem ráðgjöf, mannauðsmálum og málefnum sem tengjast fjölmenningu.
Með stuðningi þínum mun ég leggja mig fram við að stuðla að enn frekari vexti Visku. Ég mun áfram hafa hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi í minni vinnu og leggja sérstaka áherslu á að menntun sé metin til launa og að auka sveigjanleika félagsmanna við endurgreiðslu námslána. Ég vil tryggja rétt til þess að sinna öldruðum foreldrum á vinnutíma án þess að það hafi neikvæðar afleiðingar fyrir laun eða vinnuframlag. Þar að auki legg ég til að styrktarsjóður félagsins verði sameinaður í einn sjóð sem félagsmenn geta nýtt til að greiða fyrir þá þjónustu sem mun nýtast best fyrir þau á hverjum tíma.
Kæra félagsfólk Visku!
Ég heiti Kristjana Mjöll og býð mig fram til áframhaldandi starfa í stjórn Visku. Ég gegni nú starfi gjaldkera stjórnar Visku og var áður formaður Stéttarfélags bókasafns- og upplýsingafræðinga (SBU).
Ég hef verið virk í verkalýðshreyfingunni síðan 2019 og hef starfað síðustu tvö ár að stofnun Visku, sem tók til starfa 1. janúar 2024 eftir sameiningu þriggja stéttarfélaga. Markmið mitt hefur verið að byggja upp öflugt félag sem veitir framúrskarandi þjónustu og berst fyrir réttindum félagsfólks.
Ég hef haft það að leiðarljósi að bæta stöðu háskólamenntaðra sérfræðinga sem raðast lágt í launatöflum hins opinbera, sérstaklega í menningar-, mennta- og heilbrigðisstofnunum. Laun þeirra byggjast á starfsmatskerfum og stofnanasamningum sem endurspegla oft ekki raunverulegt virði starfsins.
Viska þarf að tryggja betri kjör alls félagsfólks með öflugri hagsmunagæslu og samtali við launagreiðendur. Í þeim kjarasamningum sem félagsfólk Visku samþykkti árið 2024 og gilda til ársins 2028 eru bókanir sem mikilvægt er að fylgja vel eftir, viðhalda samtali um starfsmatskerfi og endurnýja stofnanasamninga.
Hljóti ég kjör í stjórn Visku mun ég styðja þessa vegferð og vinna að því að launasetning félagsfólks byggist á málefnalegum grunni.
Kynningarefni
Frekari upplýsingar um mig má finna hér: https://kristjanahjorvar.is
Ég heiti Linda Björk Markúsardóttir og er með BA gráðu í íslensku frá Háskóla Íslands og MS próf í talmeinafræði frá þeim sama skóla. Ég hef starfað sem talmeinafræðingur frá 2013, bæði á Grensásdeild Landspítala og sjálfstætt á stofu. Þessi vinnustaðasamsetning hins opinbera og einkageirans veitir mér mikilvæga innsýn í hugðarefni, áskoranir og baráttumál fólks á hvorum markaði fyrir sig. Þar að auki er ég heilbrigðisstarfsmaður og það er, af ótal ástæðum, mikilvægt að þeir hafi sterkan málsvara innan Visku.
Ég hef tekið þátt í stéttarfélags- og réttindamálum óslitið frá árinu 2017, setið í samninganefndum fyrir Fræðagarð og verið formaður samninganefndar sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga. Árið 2023 varð ég þess heiðurs aðnjótandi að koma að stofnun stéttarfélagsins Visku, sem er framúrskarandi valkostur fyrir alla sérfræðinga og hefur alla burði til að breyta landslagi íslenskra stéttarfélaga til frambúðar. Viska á skilið að slíta barnaskónum með vel samsetta stjórn og því vil ég bjóða fram reynslu mína, réttsýni og óbilandi trú á að alltaf megi gera betur. Ég gef kost á mér til þess að spyrja réttra spurninga, efast, snúa við steinum og taka vel upplýstar ákvarðanir félagsfólki Visku til heilla.
Fæ ég þitt umboð til þess?
Kæra félagsfólk – ég býð mig fram til áframhaldandi stjórnarsetu í Visku!
Ég hef verið í stjórn Visku frá stofnun, þar áður í stjórn Fræðgarðs frá árinu 2022 og er stolt af þeirri vegferð sem félagið okkar er á. Ég sit einnig í framkvæmdastjórn BHM fyrir hönd Visku.
Sjálf starfa ég á almennum vinnumarkaði, sem verkefna- og viðburðastjóri Samfylkingarinnar, og tel mikilvægt að Viska verði leiðandi afl innan BHM í málefnum félagsfólks á almenna vinnumarkaðnum. Það er hópur sem nú spannar um 30% félagsmanna og fer ört stækkandi.
Á síðasta ári gerðum við okkar fyrsta kjarasamning við Félag atvinnurekenda og nú erum við í viðræðum við SA – sem er stórt skref fyrir réttindi okkar á almennum markaði.
Ég legg ríka áherslu á:
- Sterka hagsmunagæslu
- Virkt samtal við háskólasamfélagið
- Framsækið stéttarfélag að norrænni fyrirmynd
Ég hef víðtæka reynslu frá Norðurlöndum eftir búsetu og störf og legg áherslu á að Viska þróist áfram sem faglegt og framsækið stéttarfélag að norrænni fyrirmynd.
Viska er ungt félag með mikinn slagkraft – og ég vil halda áfram að byggja það upp með ykkur.
Takk fyrir stuðninginn – og munið að kjósa!
Baráttukveðja,
Sigrún EinarsdóttirKynningarefni
Ég, Steindór Gunnar Steindórsson, býð mig fram til áframhaldandi setu í stjórn Visku. Ég hef tekið virkan þátt í starfi félagsins frá stofnun, en var áður varaformaður í Félagi íslenskra félagsvísindamanna, einu þeirra félaga sem sameinuðust í Visku. Félagið og hlutverk þess eru mér afar hugleikin. Með reynslu úr fjölmiðlum, stjórnsýslu og samskiptum hef ég starfað hjá stofnunum á borð við RÚV, UNICEF á Íslandi, Þjóðminjasafninu og Sjúkratryggingum Íslands. Þá hef ég rekið eigið fyrirtæki í miðlun og samskiptum. Í dag starfa ég sjálfstætt, er giftur og á þrjú börn á grunnskólaaldri.
Ég hef brennandi áhuga á félagsmálum og tel mikilvægt að Viska sé sterkt, öflugt og sýnilegt stéttarfélag sem stendur vörð um hagsmuni félagsfólks. Ég vil halda áfram að efla félagið, byggja ofan á gott starf og tryggja að rödd okkar heyrist. Ég er tilbúinn í verkin og hlakka til að taka þátt í næstu skrefum – fyrir hönd okkar allra.
Kynningarefni
Ég er upplýsingafræðingur og stjórnsýslufræðingur sem hefur unnið í stjórn SBU 2009– 2016 og frá 2019 fram að sameiningu í Visku, og þar eftir sem varamaður í stjórn Visku. Ég hef unnið að samningum bæði fyrir hönd stéttarfélagsins 2009–2016 og aftur 2019, og í samningahrinum fyrir BHM 2011, 2015 og 2019. Ég vinn sem skjalastjóri hjá Samgöngustofu og hef einnig umsjón með afar smáu bókasafni. Eftir útskrift 1997 hef ég unnið í bókasöfnum, við rafræn gögn og skjalastjórnun, sem hefur verið aðalviðfangsefni mitt síðan 2012. Á sama tíma hef ég kennt á Bifröst, í HÍ og í gamla KHÍ, skrifað greinar um fag mitt, bókarkafla og bók, og verið ritstjóri fagtímaritsins Bókasafnið.
Kynningarefni
Í gegnum störf mín fyrir Menningarfélag Akureyrar, Norræna húsið og í sjálfstæðum rekstri hef ég öðlast víðtæka reynslu af rekstri, stefnumótun, fjármálum og mannauðsmálum. Ég hef unnið að gerð stofnanasamninga og kjarasamninga, leitt stefnumótun og umbótaverkefni. Í mínum störfum hef ég unnið náið með stjórnum, starfsfólki og ytri hagsmunaaðilum. Í öllum störfum mínum legg ég mikið upp úr lausnamiðaðri hugsun, traustum vinnubrögðum og góðum starfsanda.
Ég er með MA í mannauðsstjórnun, Diplómu í Umhverfis- og auðlindafræði, Diplómu í Kennslufræði og BA í myndlist og hef því fjölþætta þekkingu og reynslu að baki. Sem framkvæmdastjóri Menningarfélagsins tók ég við félagi í rekstrarvanda og með markvissum aðgerðum í samstarfi við stjórn, starfsfólk og bæjaryfirvöld tókst að snúa hallarekstri við á einu ári. Eitt af mínum verkefnum var að vinna verklagshandbók fyrir stjórn þar sem hlutverk, ábyrgð og siðareglur stjórnarmeðlima voru skilgreind.
Ég hef reynslu af stjórnarstörfum, sem framkvæmdarstjóri og úr félagastarfi, en ég er formaður Skrauta og stjórnarmaður í SUNN, sat í stjórn Landverndar og var fulltrúi starfsmanna í stjórn Norræna hússins.
Það væri mér heiður að leggja mitt af mörkum í þágu félagsfólks Visku og styðja við öflugt og mikilvægt stéttarfélag sem ég hef verið hluti af allan minn starfsferil.