Beint í efni
Undirritun á samstarfssamningi Visku við Jónsbók
Fréttir

Sam­starf Jóns­bók­ar og Visku á sviði gervi­greind­ar

Höfundur

Gauti Skúlason

Gauti Skúlason

samskipti og markaðsmál

Viska og Jónsbók hafa gert með sér samkomulag um spennandi samstarf á sviði gervigreindar. Verkefnið snýst um að þróa sérsniðinn gervigreindargrunn sem getur orðið undirstaða fjölmargra gervigreindarlausna sem stéttarfélag eins og Viska þarf á að halda – bæði í daglegri starfsemi og framtíðarverkefnum.

Sérfræðingar Visku hafa þegar nýtt Jónsbók, sérhæfða gervigreindarlausn fyrir lögfræðinga, með góðum árangri. Nýja verkefnið gengur enn lengra: Markmiðið er að kenna gervigreindinni allt sem máli skiptir um Visku, starfsemi stéttarfélagsins, vinnumarkaðsmál og lögfræðileg málefni. Með því tryggja Viska og Jónsbók að þjónustufulltrúar og sérfræðingar Visku hafi greiðan aðgang að allri nauðsynlegri þekkingu þegar þeir vinna að málefnum félagsfólks.

Í framhaldinu verður gervigreindargrunnurinn nýttur til að efla þjónustu og upplýsingaflæði enn frekar, bæði á heimasíðu Visku og á innri vefnum Mín Viska, þar sem félagsfólk mun geta nálgast skýrar og aðgengilegar upplýsingar um réttindi sín og þjónustu félagsins.

Samstarfið markar nýtt skref í innleiðingu framsækinna lausna í starfsemi Visku og er byggt á norrænni fyrirmynd, þar sem áhersla er lögð á að nýta tækni til að styrkja þjónustu, bæta aðgengi að upplýsingum og gera sérfræðivinnu skilvirkari.

„Það er einstaklega gaman að vinna með framsæknu stéttarfélagi eins og Visku. Við leggjum kapp á að tryggja ánægju áskrifenda Jónsbókar. Það er því einstaklega ánægjulegt að geta aukið þjónustu okkar við Visku með því að nýta hugverk Jónsbókar á fleiri vígstöðum en eingöngu lögfræðisviðinu,“segir Thelma Christel Kristjánsdóttir, meðstofnandi Jónsbókar.

„Alveg frá stofnun Visku höfum við fylgst náið með hinni hröðu þróun sem á sér stað á sviði gervigreindar og þannig má segja að tækninýjungar séu hluti af DNA hjá Visku. Að mínu mati er ávinningurinn tvíþættur, það er bæði að efla þjónustu við félagsfólk og auka skilvirkni á vinnustaðnum en einnig að starfsfólk Visku skilji og þekki umhverfi gervigreindar og sé þannig meðvitað um þær gríðarlegu breytingar sem eru að eiga sér stað í vinnuumhverfi okkar félagsfólks,“ segirGeorg Brynjarsson, framkvæmdastjóri Visku.