Kjaraviðræður við Reykjavíkurborg langt komnar
Höfundur
Gauti Skúlason
Fulltrúar Visku og Reykjavíkurborgar hafa setið tíða fundi síðustu vikurnar og eru viðræðurnar langt á veg komnar.
Líkt og áður hefur komið fram eru samningsaðilar í meginatriðum sammála um áframhaldandi þróun betri vinnutíma og launaþróunartryggingar fyrir opinbera markaðinn en um þau atriði hefur verið samið í þeim kjarasamningum sem nú þegar hafa verið samþykktir í þessari kjaralotu.
Enn er fundað um fyrirkomulag á launaliðnum og tryggingu fyrir því að jöfn laun fái fyrir jafn verðmæt störf. Sem fyrr er það ófrávíkjanleg krafa af hálfu félagsins ásamt því að samningurinn gildir afturvirkt frá og með 1. apríl síðastliðnum
Samninganefnd Visku leggur mikla áherslu á að kjaraviðræðum við Reykjavíkurborg ljúki sem fyrst með farsælum hætti fyrir félagsfólk.