
Húsfyllir á morgunverðarfundi Visku um gervigreind
Vilhjálmur Hilmarsson, hagfræðingur Visku, kynnti stærstu könnun sem gerð hefur verið um gervigreind á íslenskum vinnumarkaði, þar sem tæplega 6.000 sérfræðingar fengu boð og um 1.000 einstaklingar svöruðu. Niðurstöðurnar sýna að notkun gervigreindar er þegar umtalsverð, en fræðsla og stefnumótun haldi aftur af frekari innleiðingu. Einungis um þriðjungur starfsfólks hefur fengið þjálfun, þrátt fyrir að flestir telji gervigreind auka afköst og vilja nota hana meira.

Einar Gunnar Thoroddsen frá Stjórnarráðinu sýndi svo hagnýtar dæmisögur um hvernig opinberar stofnanir nýta gervigreind til að einfalda greiningarvinnu og auka skilvirkni. Hann benti á sérstöðu Íslands: sterka stafræna innviði, gott tæknilæsi almennings og hvata til innleiðingar þar sem fáar hendur sinna mörgum verkefnum.

Sylvía Rut Vilhjálmsdóttir, ráðgjafi hjá KPMG, fjallaði um hvernig íslensk fyrirtæki standa í alþjóðlegum samanburði. Hún nefndi að þótt áhuginn sé mikill telji 87% íslenskra stjórnenda að sjálfráð gervigreind muni hafa frekar lítil áhrif á rekstur á meðan 57% erlendra stjórnenda telja áhrifin verða mikil. Hún sýndi einnig dæmi um hvernig sjálfvirk gervigreind geti stytt vinnu úr klukkustundum niður í mínútur og skapað verulegan ávinning.

Lilja Dögg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Almannaróms, fjallaði um stöðu íslenskunnar í stafrænum heimi og mikilvægi þess að tryggja aðgang að gervigreindarlausnum á íslensku. Hún lagði áherslu á að íslenska er töluð af færri en 400.000 manns og því sé lítill hvati fyrir alþjóðleg tæknifyrirtæki að þjálfa líkön á tungumálinu. „Við verðum að gæta þess að fullveldi og menningararfur fylgi okkur inn í stafrænu framtíðina,“ sagði hún og kynnti verkefni Almannaróms sem ætlað er að tryggja íslensku sess í nýjustu tækni.

Að lokum sköpuðust líflegar umræður þar sem fundargestir ræddu bæði tækifæri og áskoranir. Á sama tíma og sérfræðingar eru tilbúnir að nýta tæknina eru vinnustaðir varfærnir í innleiðingu. Helstu hindranir eru skortur á stefnu, fræðslu og skýrum verkferlum. Þar kom einnig fram að allt of hátt hlutfall sérfræðinga sé sjálfir að greiða fyrir aðgang að gervigreindartólum sem nýtast atvinnurekendum.

Viska mun reglulega boða til morgunverðafunda um málefni líðandi stunda og var þessi sá fyrsti í röðinni.
Myndir af fundinum
Félagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt í fundinum fyrir komuna.










