
90 milljarða útflutningstækifæri í hugviti
Efnahagslegt forskot Íslands er umtalsvert nú um stundir. Landið skipar 2. sæti af 38 OECD-ríkjum þegar kemur að kaupmætti meðallauna á ársgrundvelli og jöfnuður tekna er meiri en á öðrum Norðurlöndum. En sterkar forsendur Íslands eru ekki sjálfgefnar til framtíðar. Hagvaxtarinneign stærstu útflutningsgreina er takmörkuð og einhæfni útflutnings mun meiri en í öðrum löndum. Viska hvetur stjórnvöld til að beita markvissum aðgerðum til að auka útflutningstekjur og fagnar því áformum um mótun atvinnustefnu til 2035.
Umsögn Visku um atvinnustefnu 2035 er tvíþætt; í fyrstu er fjallað um ógnir sem steðja að íslenska hagkerfinu og mikilvægi atvinnustefnu í því samhengi. Í framhaldi eru svör veitt við spurningum stjórnvalda og lagt til nýtt útflutningstækifæri byggt á hugviti og reynslu annarra Norðurlanda. Tækifæri sem gæti aukið útflutningstekjur um tæplega 90 milljarða á ári á verðlagi 2025, ef okkur tekst hlutfallslega jafn vel til og öðrum Norðurlandaþjóðum.
Erfitt að viðhalda í lífsgæðaforskotinu að óbreyttu
90 milljarða vannýtt útflutningstækifæri?
Stjórnvöld geta ekki ráðið stefnu hagkerfisins, en þau geta skapað aðstæður til vaxtar nýrra atvinnugreina og gripið til aðgerða sem styðja við hagvöxt í stað þess að hindra hann. Það krefst skipulegs samtals við hagaðila um umbætur í menntakerfi, skattkerfi og stuðningskerfum. Í því samhengi er mikilvægt að stjórnvöld átti sig á að samkeppnishæfni velferðarríkis byggist ekki aðeins á markaðsöflunum heldur líka á farsælu sambýli opinbers og einkareksturs. Svör Visku við spurningum stjórnvalda endurspegla þessa sýn.
Helstu markmið og mælikvarðar varðandi þróun atvinnulífs næstu 10 ár?
Markmið atvinnustefnunnar ættu annars vegar að vera að auka fjölbreytni og vægi útflutnings í verðmætasköpum, þar sem hugvit, tækni og nýsköpun er sett í forgang og hins vegar að efla framleiðni í rótgrónum greinum t.a.m. ferðaþjónustu:
Markmið og mælikvarðar fyrir 2035
i. Heildarvægi og fjölbreytni útflutnings: Vægi útflutnings ≥ 50% af VLF; fjöldi vara>0,3% hlutdeild í vöruútflutningi hækki í 200+.
ii. Vægi náttúruauðlinda: Vægi þeirra í útflutningi minnki úr 66% í ≤ 50%.
iii. Verðmæti ferðaþjónustu: Meðaltekjur á ferðamann hækki um 50% að raunvirði, án hlutfallslegrar fjölgunar gistinátta/íbúa. Vægi vetrarferðamennsku stóraukist.
iv. Hlutdeild háframleiðnistarfa: Hlutfall þeirra af starfandi aukist um 50%.
v. Gæði menntunar: STEM-útskriftir verði ≥ 30% af háskólaútskriftum; starfsnám ≥ 35% í framhaldsskólum; PISA-skor í topp 5 meðal OECD þjóða.
Til hvaða aðgerða geta stjórnvöld gripið til að efla útflutning?
Verkfærin liggja í einföldu skattkerfi, markvissari menntastefnu, bættum innviðum og fullfjármögnuðu opinberu kerfi m.a.:
i. Aðgerðir í opinberum fjármálum: Fækkun undanþága í VSK kerfinu, auknar og hnitmiðaðri R&D-endurgreiðslur byggðar á reglubundnu árangursmati og sértækir skattahvatar fyrir græna orku, hugbúnað og lífvísindi.
ii. Aðgerðir í menntakerfinu: Innleiðing samræmds og reglubundins námsmats á grunnskólastigi, fullfjármögnun starfsnáms og fullfjármögnun háskólastigsins.
iii. Vinnumarkaðsaðgerðir: Dvalarleyfi tengd betur við hugvitsdrifnar skortsgreinar, markvissari aðgerðir til að tryggja samkeppnishæf kjör á opinberum markaði og betri tenging skóla og atvinnulífs.
iv. Innviðir og opinber kerfi: Aukin uppbygging grænna orkuinnviða, aukin sjálfvirknivæðing í opinberum rekstri og markvissari innkaupastefna, fullfjármögnun heilbrigðiskerfis, einföldun leyfisveitinga, afnám séríslenskra aðgangshindrana á mörkuðum og veruleg efling samkeppniseftirlits.
Hvaða útflutningsgreinar geta vaxið mest á næstu tíu árum?
Tækifærin á sviði útflutnings undir liðnum „önnur viðskiptaþjónusta“ eru verulega vannýtt miðað við Norðurlöndin. Útflutningurinn, sem inniheldur m.a. útselda verkfræðiþjónustu, lögfræðiþjónustu og starfsemi alþjóðlegra ráðgjafafyrirtækja á við Deloitte, var rúmlega tvöfalt meiri á hverja 1.000 ibúa í Danmörku og Svíþjóð en á Íslandi árið 2024. Ef Íslendingum tækist að virkja ný útflutningstækifæri á sviði ráðgjafar og ná svipuðu umfangi og Svíar og Danir myndu útflutningstekjur Íslands aukast um tæplega 90 milljarða króna á verðlagi ársins 2024. Sjá myndir að neðan sem sýna útflutta „aðra viðskiptaþjónustu“ í milljónum króna á hverja 1.000 íbúa (fyrri mynd) og mat á auknum útflutningstekjum Íslands í milljörðum ef Ísland næði sama árangri og Norðurlöndin í útflutningi annarrar viðskiptaþjónustu (seinni mynd).
Eitt stærsta tækifæri Íslands innan þessa liðar er útflutningur á tækni, þjónustu og ráðgjöf tengt jarðvarma til húshitunar. Danir hafa náð sérstökum árangri með vindorkunni: fyrst sem innlendri orkulausn, en síðar sem útflutningur á tækni, þjónustu og ráðgjöf. Ísland getur fetað svipaða slóð með útflutningi enda er landið eitt fárra ríkja sem hefur þróað víðtæka notkun jarðhita til húshitunar. Til álita gæti komið að stofna sérstakt útflutningsráð jarðvarma til að virkja vannýtt tækifæri og styðja sérstaklega við rannsóknir og þróun í greininni.
En tækifærin eru fjölmörg utan viðskiptaþjónustunnar m.a í:
i. Grænum iðnaði: framleiðsla á vetni, rafeldsneyti og kolefnishlutlaus málmvinnsla sem nýtir endurnýjanlega orku.
ii. Lífvísindum og líftækni: prótein, bætiefni og heilsutengd lífefni byggð á sjávarlífauðlindum og rannsóknarhefð.
iii. Matvælaframleiðslu: fullnýting hráefna og kolefnishlutlaus framleiðsla.
iv. Skapandi greinum: tónlist, kvikmyndir, hönnun og stafrænar menningarafurðir.