
82% sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga hafa litla trú á stjórnvöldum
82% sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga segjast hafa litla trú á stjórnvöldum þegar kemur að því að stytta biðlista eftir talmeinaþjónustu á Íslandi. Rúmlega 70% sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga eru þá óánægð með kjör sín og um 40% sem starfa á samningi við Sjúkratryggingar Íslands íhuga nú að hætta störfum. Stjórnvöld eru sögð leggja meiri áherslu á langar skýrslur um vanda talmeinaþjónustu en markvissar aðgerðir.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í könnun Visku og Félags talmeinafræðinga sem framkvæmd var í desember 2025. Um 90 talmeinafræðingar svöruðu könnuninni, sem jafngildir um helmingi allra starfandi talmeinafræðinga með starfsleyfi á Íslandi.
Talmeinafræðingar telja stjórnvöld treg til að forgangsraða og spyrja gagnrýnna spurninga. Tvítyngd börn og innflytjendur eru ítrekað sett á biðlista eftir talmeinaþjónustu þegar nær væri að efla íslenskukennslu og snemmtæka skimun í grunnskólum. Ekki hefur tekist að koma á miðlægum biðlista og ábyrgðarskipting ríkis og sveitarfélaga er flókin og óskilvirk. Síðast en ekki síst er bent á að sjálfstætt starfandi talmeinafræðingar hafa setið eftir í kjörum samanborið við aðra háskólamenntaða á Íslandi.
Kaupmáttarrýrnun hjá sjálfstætt starfandi talmeinafræðingum, langvarandi samningsleysi og samskiptavandi við Sjúkratryggingar Íslands hafa gert að verkum að mikil óánægja er í stéttinni. Sjúkratryggingar eru sagðar hafa engan vilja til að semja um bætt kjör og hafa litla þekkingu á eðli starfs talmeinafræðinga. Talmeinafræðingum hefur verið neitað um að kjarabætur þeirra fylgi launavísitölu að hluta eins og samið hefur verið um við sjúkraþjálfara, lækna og tannlækna. Ekki virðist vilji til að greiða fyrir ólaunaða undirbúningsvinnu. Erfið samskipti við Sjúkratryggingar Íslands eru sögð stór hluti ástæðunnar fyrir að fyrir að ekki hefur tekist að byggja upp stærri stétt sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga á Íslandi.
