Beint í efni
1. maí 2024
Fréttir

Yf­ir­stand­andi kjara­við­ræð­ur Visku við op­in­bera að­ila

Höfundur

Gauti Skúlason

Gauti Skúlason

samskipti og markaðsmál

Fulltrúar Visku halda áfram að hitta samninganefnd ríkisins. Viðræðurnar ganga ágætlega og enn er rætt um jöfnun launa á milli markaða og svo styttingu vinnuvikunnar í dagvinnu annars vegar og vaktavinnu hins vegar.

Síðastliðnar vikur hafa fulltrúar Visku fundað með samninganefnd ríkisins með reglubundum hætti, bæði á formlegum samninganefndarfundum og óformlegri vinnufundum. Fundirnir hafa verið góðir og ágætis gangur er í viðræðunum en þó er enn töluvert í land.

Viska hefur einnig átt fundi með samninganefndum Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga en meiri kraftur færist í þær viðræður eftir því sem Viska færist nær samkomulagi við ríkið.

„Fundir okkar með samninganefnd ríkisins hafa gengið ágætlega en ég á ekki von á niðurstöðu í það samtal strax á næstunni. Til hliðar við samtal okkar við ríkið, fundum við nú reglulega með öðrum hagsmunaaðilum á vinnumarkaðnum um jöfnun launa á milli markaða og áframhaldandi styttingu vinnuvikunnar, og útfærslu þar af lútandi við kjarasamningaborðið. Við leggjum áherslu á að halda samtalinu gangandi af festu,“ segir Júlíana Guðmundsdóttir, aðalsamningamaður Visku og lögfræðingur félagsins.

Viska heldur félagsfólki sínu upplýstu um gang kjaramála með reglubundnum hætti. Á fréttasafni á vefsíðu félagsins getur þú fundið allar fréttir um yfirstandandi kjaraviðræður.