Beint í efni
Kona stendur upp við vegg með síma
Fréttir

Kjara­við­ræð­ur Visku við op­in­bera að­ila standa yfir

Höfundur

Gauti Skúlason

Gauti Skúlason

samskipti og markaðsmál

Samninganefnd Visku fundaði í gær með samninganefnd ríkisins. Fundurinn gekk vel og samtalinu miðar vel áfram.

Viska átti fund með samninganefnd ríkisins í gær eftir að BSRB og Sameyki sömdu um nýjan kjarasamning. Góðar viðræður áttu sér stað á fundinum og verður þeim framhaldið í næstu viku.

„Kjaraviðræður Visku við ríkið ganga ágætlega þessa stundina og fundurinn í gær gekk vel. Viðræðurnar eru á viðkvæmu stigi og því ekki mikið sem við getum tjáð okkur efnislega um við félagsfólk okkar á þessu stigi. Ég skil vel að félagsfólki okkar sé farið að lengja eftir svörum en við reynum að halda fólki upplýstu um gang mála með reglulegum hætti eins og hægt er. Að því sögðu þá vonumst við hjá Visku auðvitað til þess að ganga frá samkomulagi við okkar samningsaðila sem fyrst. Hins vegar, eins og ég hef áður sagt, þá mun Viska að sjálfsögðu ekki gefa afslátt af sínum kröfum einungis til þess að ljúka viðræðunum,“ segir Júlíana Guðmundsdóttir, aðalsamningamaður Visku og lögmaður félagsins.

Viska hefur einnig átt fundi með samninganefndum Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga en áður en  þær viðræður halda áfram af krafti þá þarf Viska að færast nær samkomulagi við ríkið.

Viska heldur félagsfólki sínu upplýstu um gang kjaramála með reglubundnum hætti. Á fréttasafni á vefsíðu félagsins getur þú fundið allar fréttir um yfirstandandi kjaraviðræður.