Beint í efni
Ráðhús Reykjavíkur: Gróður og tjörn
Fréttir

Viska und­ir­rit­ar kjara­samn­ing við Reykja­vík­ur­borg

Höfundur

Gauti Skúlason

Gauti Skúlason

samskipti og markaðsmál

Í dag skrifuðu Viska og samninganefnd Reykjavíkurborgar undir kjarasamning til fjögurra ára.

Samningurinn er nýr heildarkjarasamningur sem felur í sér afturvirkni frá 1. apríl.

Samningurinn felur í sér almennar launahækkanir til félagsfólks á samningstímabilinu, þar á meðal hækkanir á persónuálagi. Launatöfluauki fylgir með samningnum sem tryggir að launaþróun hjá Reykjavíkurborg haldist svipuð og á almennum vinnumarkaði á tímabilinu.

Félagsfólk Visku hjá Reykjavíkurborg fær árlega greitt úr Vísindasjóði Visku og nemur styrkupphæð 1,6% af dagvinnulaunum. Þau sem þess óska geta fengið útgreiðslur úr Vísindasjóði fellda inn í launatöflu sína og þar með fengið hærri launagreiðslur. Félagsfólk sem vill óbreytt fyrirkomulag með Vísindasjóð fá áfram greitt árlega úr sjóðnum. Hægt verður að breyta greiðslufyrirkomulagi varðandi Vísindasjóð árlega.

„Við erum ánægð með að hafa náð samkomulagi við Reykjavíkurborg,“ segir Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir formaður Visku. „Með samningnum tryggjum við félagsfólki okkar nauðsynlegar launahækkanir og kjarabætur og leggjum undirstöður að virku samstarfi næstu árin við að efla kjör félagsfólks á öllum sviðum borgarinnar.”

Samningurinn verður kynntur félagsfólki á kynningarfundum fimmtudaginn 21. nóvember kl. 16:00 og föstudaginn 22. nóvember kl. 12:00. Krækjur á kynningarfundi eru sendar félagsfólki Visku hjá Reykjavíkurborg í tölvupósti.  Þau sem ekki hafa fengið póstinn geta haft samband.

Atkvæðagreiðsla hefst að kynningu lokinni, með það að markmiði að launahækkanir skili sér afturvirkt um næstu mánaðarmót.