Beint í efni
stjórnarráðið sumar
Fréttir

Viska og Stjórn­ar­ráð Ís­lands und­ir­rita stofn­ana­samn­ing

Höfundur

Gauti Skúlason

Gauti Skúlason

samskipti og markaðsmál

Viska hefur gert sinn fyrsta stofnanasamning við Stjórnarráð Íslands. Samningurinn er mikilvægur áfangi fyrir félagsfólk Visku innan stjórnarráðsins, sem þegar telur vel á annað hundrað, og styrkir formlega tengingu félagsins við vinnustaðinn.

Samningurinn nær til allra ráðuneyta og veitir háskólamenntuðu starfsfólki, óháð starfsheiti eða starfssviði, tækifæri til að gerast félagsfólk í Visku. Stjórnarráðið er þekkingarvinnustaður þar sem starfsemin byggir á sérhæfingu, fagmennsku og öflugri þekkingu. Í samræmi við það er Viska framsækið stéttarfélag sem leggur áherslu á sérhæfða þjónustu við háskólamenntaða sérfræðinga og að styðja við sérstöðu þeirra á íslenskum vinnumarkaði.

Meðal nýmæla í samningnum er ákvæði um markvisst samstarf milli Visku og utanríkisráðuneytisins um framkvæmd samningsins, með hagsmuni félagsfólks að leiðarljósi, en einnig þannig að hann styðji við framfylgd nútímalegrar mannauðsstefnu innan Stjórnarráðsins. Þá hyggst Viska jafnframt leggja sérstaka áherslu á að kynna fjölbreytta þjónustu sína fyrir starfsfólki Stjórnarráðsins.

Viska og stjórnarráðið undirrita stofnansamning

Á myndinni eru frá vinstri til hægri: Hreinn Pálsson í samninganefnd Stjórnarráðsins, Katrín Björg Ríkarðsdóttir sérfræðingur hjá Visku í kjaramálum, Ragnheiður Valdimarsdóttir í samninganefnd Stjórnarráðsins, Júlíana Guðmundsdóttir lögmaður Visku, Anna María Urbancic í samninganefnd Stjórnarráðsins og Ólöf Kristjánsdóttir í samninganefnd Stjórnarráðsins (en hún var staðgengill Margrétar Hallgrímsdóttur í samninganefnd Stjórnarráðsins).

Á myndina vantar Önnu Ósk Kolbeinsdóttur í samninganefnd Stjórnarráðsins.