Beint í efni
Ávinningur aðildar

Ávinningur aðildar

    Kjör og réttindi

    Kjör og réttindi

      Hagsmunagæsla

      Hagsmunagæsla

        Fjármála- og efnhagsráðunreytið skjaldamerki á vegg

        Höfundur

        Vilhjálmur Hilmarsson

        Vilhjálmur Hilmarsson

        hagfræðingur Visku

        Um­sögn Visku um frum­varp til fjár­laga 2026

        Viska hefur tekið til umsagnar frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2026 en umsögnin fjallar eingöngu um afnám almennrar heimildar til skattfrjálsrar ráðstöfunar séreignar inn á húsnæðislán.

        Í umsögn sinni bendir félagið á að afnám heimildarinnar jafngildir samdrætti í húsnæðisstuðningi við eigendur um rúmlega 7 milljarða króna á ársgrundvelli. Stuðningur við eigendur verður þá sögulega lítill á næsta ári ef stjórnvöld afnema heimildina en heimildin er burðarás alls eigendastuðnings á Íslandi. Að mati Visku er óhjákvæmilegt að almenna heimildin verði framlengd út árið 2026 hið minnsta á meðan unnið er að heildarendurskoðun eigendastuðnings á Íslandi.

        7 milljarða skattaafsláttur afnuminn – ígildi skattahækkunar

        Frá 2014 hefur skattaafsláttur og tilsvarandi húsnæðisstuðningur vegna almennu heimildarinnar numið um 90 milljörðum króna á verðlagi 2025 – þar af um 7 milljörðum á árinu 2025. Sé gert ráð fyrir sömu nýtingu á næsta ári og sömu hámarksfjárhæðum mun afnám almennu heimildarinnar því kosta heimilin um 7 milljarða króna á árinu 2026, í formi tapaðs skattaafsláttar sem líta má á sem ígildi skattahækkana. Rétt er að benda að þessi tapaði skattaafsláttur er stærsta boðaða breyting í skattheimtu á millistéttina í framlögðu frumvarpi, ásamt endurskoðun á skattlagningu ökutækja og eldsneytis.

        Hvað er planið með eigendastuðninginn?

        Eftir 2014 var vaxtabótakerfið svo til afnumið og skattfrjáls ráðstöfun séreignar tók við sem meginstoð eigendastuðnings á Íslandi. Vægi almenna séreignarúrræðisins í eigendastuðningi jókst samhliða í tæplega 50% af öllum eigendastuðningi. Verði úrræðið afnumið árið 2026 er fyrirséð að húsnæðisstuðningur við eigendur dragist því saman um helming frá fyrra ári og verði hverfandi og við sögulegt lágmark á árinu 2026. Bætir það gráu ofan á svart þar sem húsnæðisstuðningur við eigendur hefur aðeins verið um 0,3% af VLF síðustu ár sem er mjög lágt í sögulegu samhengi.

        Framlengja, endurskoða og „affjárfestingarvæða“

        Að mati Visku er óhjákvæmilegt að stjórnvöld framlengi almennu heimildina út 2026 hið minnsta en hefjist strax handa við heildarendurskoðun eigendastuðnings á Íslandi. Samhliða ættu  stjórnvöld að beita sér af krafti fyrir aðgerðum sem auka framboð íbúðarhúsnæðis fyrir almenning, t.a.m. með því að koma böndum á skammtímaleigu til ferðamanna og vinna gegn fjárfestingarvæðingu íbúðarhúsnæðis með því að afnema séríslenska skattahvata. Bendir Viska á þá einstöku staðreynd að hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis á Íslandi er skattfrjáls hafi aðili átt hina seldu eign í full tvö ár og heildarrúmmál íbúðarhúsnæðis er undir 600 m3 hjá einstaklingi. Jafngildir það skattleysi á þrjár 70-80 fermetra íbúðir miðað við eðlilega lofthæð, svo dæmi séu tekin. Það skýtur skökku við að fyrri stjórnvöld skuli hafa valið að ýta undir fasteignaverð á Íslandi með skattleysi til þeirra sem eiga margar íbúðir, þegar húsnæðisvandi meðal ungs fólks er sögulegur og mun bara aukast á næstu árum. Sjá umfjöllun Visku um kynslóðaójöfnuð.