Í umsögn sinni bendir félagið á að afnám heimildarinnar jafngildir samdrætti í húsnæðisstuðningi við eigendur um rúmlega 7 milljarða króna á ársgrundvelli. Stuðningur við eigendur verður þá sögulega lítill á næsta ári ef stjórnvöld afnema heimildina en heimildin er burðarás alls eigendastuðnings á Íslandi. Að mati Visku er óhjákvæmilegt að almenna heimildin verði framlengd út árið 2026 hið minnsta á meðan unnið er að heildarendurskoðun eigendastuðnings á Íslandi.
Framlengja, endurskoða og „affjárfestingarvæða“
Að mati Visku er óhjákvæmilegt að stjórnvöld framlengi almennu heimildina út 2026 hið minnsta en hefjist strax handa við heildarendurskoðun eigendastuðnings á Íslandi. Samhliða ættu stjórnvöld að beita sér af krafti fyrir aðgerðum sem auka framboð íbúðarhúsnæðis fyrir almenning, t.a.m. með því að koma böndum á skammtímaleigu til ferðamanna og vinna gegn fjárfestingarvæðingu íbúðarhúsnæðis með því að afnema séríslenska skattahvata. Bendir Viska á þá einstöku staðreynd að hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis á Íslandi er skattfrjáls hafi aðili átt hina seldu eign í full tvö ár og heildarrúmmál íbúðarhúsnæðis er undir 600 m3 hjá einstaklingi. Jafngildir það skattleysi á þrjár 70-80 fermetra íbúðir miðað við eðlilega lofthæð, svo dæmi séu tekin. Það skýtur skökku við að fyrri stjórnvöld skuli hafa valið að ýta undir fasteignaverð á Íslandi með skattleysi til þeirra sem eiga margar íbúðir, þegar húsnæðisvandi meðal ungs fólks er sögulegur og mun bara aukast á næstu árum. Sjá umfjöllun Visku um kynslóðaójöfnuð.