Beint í efni
Þjóð gegn þjóðarmorði
Fréttir

Þjóð gegn þjóð­armorði

Höfundur

Gauti Skúlason

Gauti Skúlason

samskipti og markaðsmál

Heildarsamtök launafólks, verkalýðsfélög, mannúðarsamtök, fagfélög og önnur samtök á Íslandi taka höndum saman og boða til mótmælafunda um land allt til að sýna samstöðu með palestínsku þjóðinni og krefjast þess að íslensk ríkisstjórn grípi til alvöru aðgerða til að sýna afstöðu sína gegn þjóðarmorðinu.

Fjöldafundir eru haldnir út um allt land laugardaginn 6. september kl. 14:00 – á Austurvelli í Reykjavík, á Ráðhústorgi á Akureyri, í Tjarnargarðinum á Egilsstöðum, á Jólatréstorginu á Húsavík, á Silfurtorgi á Ísafirði og við Frúarstíg í Stykkishólmi.

Í nær tvö ár hefur heimsbyggðin með hryllingi fylgst með sífellt versnandi og óbærilegum þjáningum almennra borgara í Palestínu. Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst yfir fimmta og hæsta stigi hungursneyðar í Gaza. Hungursneyðin er alfarið manngerð af völdum Ísraelsríkis sem hefur lagt ræktanlegt landsvæði í rúst á Gaza og lokað fyrir að matvæli berist til íbúa.

Samkvæmt gögnum ísraelska hersins eru 83% þeirra sem Ísrael hefur myrt almennir borgarar. Þar af eru a.m.k. 18.500 börn eða um 28 börn á hverjum einasta degi, álíka mörg og heill bekkur í grunnskóla á hverjum degi.

Fjölmennum á mótmælafundi á Austurvelli og út um allt land laugardaginn 6. september klukkan 14.00 og krefjumst tafarlausra og markvissra aðgerða íslenskra stjórnvalda gegn þjóðarmorðinu!

Frekari upplýsingar má finna á Facebooksíðu fjöldafundanna.