Staða kjaraviðræðna við sveitarfélögin
Höfundur
Gauti Skúlason
Góður gangur hefur verið í kjaraviðræðum við sveitarfélögin síðustu vikur og daga. Viðræðunum miðar vel áfram og styttist í enda þeirra.
Viska hefur fundað reglulega með samninganefnd Reykjavíkurborgar síðustu daga. Samningsaðilar eru í meginatriðum sammála um breytingar á kjarasamningi sem verið er að innleiða á öllum vinnumarkaðnum, svo sem áframhaldandi innleiðingu á betri vinnutíma og launaþróunartryggingu fyrir opinberan vinnumarkað. Samningsaðilar hafa þó ekki enn náð saman þegar kemur að launaliðnum en eru að vinna að því að ljúka við útfærslu á þeim þætti samningsins.
Þá hefur Viska einnig fundað þétt með samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga og þar sér fyrir endann á viðræðum. Líkt og í viðræðunum við Reykjavíkurborg eru samningsaðilar í meginatriðum sammála um breytingarnar sem verið er að innleiða á öllum vinnumarkaðnum. Nú vinna aðilar að því að ljúka útfærslu á launalið samningsins.
Við samningsborðið hefur Viska lagt þunga áherslu á að auka þurfi sveigjanleika í starfsmatskerfi sveitarfélaganna, en félagsfólk Visku eru háskólamenntaðir sérfræðingar sem vinna fjölbreytt störf með ábyrgðum og skyldum sem erfitt er að fanga innan núverandi starfsmatskerfis.