
Skora á Reykjavíkurborg að efla skólasöfn grunnskóla
Höfundur

Gauti Skúlason
Kjaradeild bókasafns- og upplýsingafræðinga í Visku ásamt öðrum félögum á sviði bókasafns- og upplýsingafræða hvetja borgaryfirvöld til að standa við fyrirheit um öflugri skólasöfn með því að bæta bókakost en gera jafnframt betur og bæta einnig aðstöðu og mannafla skólasafna í Reykjavík.
Í kjölfar nýrrar samstarfsyfirlýsingar meirihlutans í borgarstjórn – þar sem lofað er að auka safnkost skólabókasafna – sendu þrjú félög á sviði bókasafns- og upplýsingafræða skóla- og frístundaráði Reykjavíkur bréf þar sem þau skora á borgina að gera markvissar úrbætur. Félögin eru kjaradeild bókasafns- og upplýsingafræðinga hjá Visku, Félag fagfólks á skólasöfnum (FFÁS) og Upplýsing – félag bókasafns- og upplýsingafræða.
Í bréfinu segir að skólasöfn gegni lykilhlutverki í námi og þroska nemenda – þau séu ekki aðeins bókageymslur heldur einnig miðstöðvar lestrarhvatningar, upplýsingalæsis og gagnrýninnar hugsunar. Því sé mikilvægt að skólasöfn fái nauðsynlegan stuðning.
Félögin nefna að staða skólasafna í Reykjavík sé mjög misjöfn – sum þeirra séu illa búin, jafnvel án fagmenntaðs starfsfólks og með skertan bókakost. Þau leggja fram níu tillögur að úrbótum, þar á meðal:
- Að tryggt verði að fagmenntaðir bókasafns- og upplýsingafræðingar starfi í öllum grunnskólum.
- Að öll skólasöfn hafi viðeigandi aðstöðu og aðgengi fyrir nemendur allan skóladaginn.
- Að fjármagn til bókakaupa verði eyrnamerkt skólasöfnum og úthlutað með jafnræði að leiðarljósi.
- Að skólasöfn fái stuðning til að þróa stafrænt efni og fjölbreytt lestrarúrræði fyrir nemendur.
- Að komið verði á öflugri miðlægri þjónustu fyrir starfsfólk skólasafna.
Kristjana Mjöll Jónsdóttir Hjörvar, formaður kjaradeildar bókasafns- og upplýsingafræðinga, undirritaði bréfið fyrir hönd Visku. „Það er ánægjuefni að meirihluti borgarstjórnar leggi áherslu á skólasöfn í þeim aðgerðum sem þau vilja ráðast í og að þau hafi sett sér markmið um bættan safnkost. Meira þarf þó að huga að og sérstaklega er mikilvægt að tryggja jafnt aðgengi allra borgarbarna að skólasöfnum. Söfnin eru í dag of háð ákvörðunum hvers skólastjórnanda þegar kemur að fjármögnun og aðbúnaði, sem hefur leitt til ólíkrar stöðu á milli skóla, jafnvel í sama hverfi. Skóla- og frístundaráð þarf að efla stöðu skólasafna í Reykjavík á sem heilsteyptan og árangursríkastan hátt,“ segir Kristjana.