Beint í efni
Ung kona og barni úti að sumri til
Fréttir

Kyn­slóða­sátt­máli Visku - 12 að­gerð­ir í þágu ungs fólks á Ís­landi

Höfundur

Vilhjálmur Hilmarsson

Vilhjálmur Hilmarsson

hagfræðingur Visku

Kynslóðasáttmáli Visku leggur til 12 aðgerðir í þágu unga fólksins – þarf kynslóðasáttmála í stjórnarsáttmálann?

Kaupmáttur fólks á aldrinum 30–39 ára hefur staðið í stað í 20 ár á Íslandi. Á sama tíma hefur ójöfnuður milli kynslóða aukist mun hraðar hér en á öðrum Norðurlöndum. Vandi ungs fólks á Íslandi krefst markvissra aðgerða.

 I. Byggjum fleiri íbúðir fyrir fólk, ekki fyrirtæki

Stefna þarf að því að fjöldi íbúða á hverja 1.000 íbúa nái meðaltali annarra Norðurlanda innan 5-10 ára. Enn vantar um 90 íbúðir á hverja 1.000 til að ná því meðaltali. Á sama tíma þarf að setja hömlur á skammtímaleigu íbúða og ýta undir séreignarstefnu:

1.   Hröðum uppbyggingu íbúða: Afnemum ónauðsynlegar kvaðir í byggingarreglugerð og einföldum skipulagsferlið. Með það að markmiði að hraða framkvæmdum og lækka byggingarkostnað, án þess að slegið verði af gæðakröfum.

2.   Fleiri heimili, færri ferðamannaíbúðir: Setjum hömlur á skammtímaútleigu íbúðarhúsnæðis til að tryggja að fleiri íbúðir nýtist sem heimili. Draga þarf úr óeðlilegum hvötum í skattkerfinu tengdum fjárfestingum í mörgum íbúðum.  

3.   Ýtum undir séreignastefnu: Endurskoða ætti vægi eigenda- og leigjendastuðnings í húsnæðisstuðningi með áherslu á að ýta frekar undir séreignarstefnu. Skoða ætti aukna eiginfjárstyrki til fyrstu kaupenda og hagstæðari lánamöguleika.

II. Fleiri hálaunastörf og fólki beint á réttar brautir

Lífsskilyrði ungs fólks batna ef við beinum því á réttar brautir og byggjum upp atvinnugreinar sem skila miklum virðisauka:

1.     Beinum ungu fólki á réttar brautir: Tryggja þarf að fjöldi útskrifaðra úr mismunandi greinum í háskóla sé í samræmi við þarfir atvinnulífsins. Fjölga þarf nemendum í iðn- og tækninámi.

2.     Fullfjármögnum háskóla og iðn- og tækninám: Fullfjármagna þarf háskólastigið í samræmi við Norðurlönd og stórefla iðn- og tækninám. Leita þarf leiða til að bæta námsumhverfi og efla kennslu á öllum skólastigum.

3.     Aukum samvinnu menntakerfis og atvinnulífs: Efla þarf tengsl milli menntakerfisins og atvinnulífsins og bjóða upp á starfsþjálfun sem hluta af háskólanámi.

4.     Markvissari stuðningur við nýsköpun: Gera ætti stuðning við rannsóknir og þróun fyrirtækja markvissari og efla rannsóknir og þróun á háskólastigi. Forgangsraða ætti nýsköpunarstyrkjum til íslenskra fyrirtækja svo virðisauki verði eftir í landinu.

5.     Metum opinberu störfin rétt: Tryggja þarf að menntun kvenna sé rétt metin, sérstaklega í störfum á opinberum markaði, svo sem í heilbrigðis- og félagsþjónustu og fræðslustarfsemi.

III. Sköpum fjölskylduvænna samfélag

Byggjum upp fjölskylduvænna samfélag að norrænni fyrirmynd og tökum stuðningskerfi við fjölskyldur til gagngerrar endurskoðunar:

1.     Barnabótakerfi sem virkar: Setjum langtímareglur um þróun barnabóta og tryggjum að þær nái varanlega og lengra upp tekjustigann. Skoða þarf samspil tilfærslna við jaðarskatta í tekjuskattskerfinu samhliða.

2.     Hærri greiðslur í fæðingarorlofi: Hækka þarf hámarksupphæðir í fæðingarorlofi til að draga úr tekjutapi og stuðla að jafnari töku fæðingarorlofs milli kynja.

3.     Brúum bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla: Fjölgum leikskólaplássum og dagvistunarúrræðum í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs.

4.     Aðstoðum innflytjendur: Auka þarf íslenskukennslu fyrir innflytjendur og tryggja að menntun þeirra sé metin í samræmi við þarfir atvinnulífsins. Bjóða ætti upp á aukið raunfærnimat til að styrkja stöðu innflytjenda á vinnumarkaði.