Beint í efni
Ráðhús Reykjavíkurborgar
Fréttir

Kjara­samn­ing­ur við Reykja­vík­ur­borg sam­þykkt­ur með mikl­um meiri­hluta

Höfundur

Gauti Skúlason

Gauti Skúlason

samskipti og markaðsmál

Viska gerði nýjan heildarkjarasamning við Reykjavíkurborg 20. nóvember síðastliðinn. Samningurinn var kynntur fyrir félagsfólki í síðustu viku og var kosið um hann meðal félagsfólks Visku sem starfar hjá Reykjavíkurborg.

Kosningu um nýjan kjarasamning Visku við Reykjavíkurborg lauk kl. 12:00 í dag. Samningurinn hefur gildistíma frá 1. apríl 2024 til 31. mars 2028. Launahækkanir gilda því afturvirkt frá og með 1. apríl síðastliðnum.

Á kjörskrá voru 329 manns og var kosningaþátttaka 49%. 148 samþykktu samninginn eða 92% en 13 greiddu atkvæði á móti eða 8%. Samningurinn telst því samþykktur.

Félagsfólk Visku hjá sveitarfélögum á von á eingreiðslu með launaseðli 1. desember næstkomandi þar sem greiddar eru afturvirkt launahækkanir á töflu frá 1. apríl.

Samningurinn felur í sér almennar launahækkanir til félagsfólks á samningstímabilinu, þar á meðal hækkanir á persónuálagi. Launatöfluauki fylgir með samningnum sem tryggir að launaþróun hjá Reykjavíkurborg haldist svipuð og á almennum vinnumarkaði á tímabilinu.

Félagsfólk Visku hjá Reykjavíkurborg fær árlega greitt úr Vísindasjóði Visku og nemur styrkupphæðin 1,6% af dagvinnulaunum. Þau sem þess óska geta fengið útgreiðslur úr Vísindasjóði felldar inn í launatöflu sína og þar með fengið hærri launagreiðslur. Félagsfólk sem vill óbreytt fyrirkomulag með Vísindasjóð fá áfram greitt árlega úr sjóðnum. Hægt verður að breyta greiðslufyrirkomulagi varðandi Vísindasjóð árlega.