
Evrópumet! – Háskólamenntun minnst metin á Íslandi
Höfundur

Vilhjálmur Hilmarsson
Íslendingar fá minnst fyrir háskólagráðuna af 35 Evrópuþjóðum – þegar horft er til tekjumunar milli háskólamenntaðra og grunnskólamenntaðra. Virði háskólamenntunar á Íslandi, mælt í þessum tekjumun er aðeins um fjórðungur af Evrópumeðaltalinu. Komið er að endastöð fyrir krónutöluhækkanir á vinnumarkaði – fyrir launafólk og fyrirtæki.
Þetta þurfum við að gera til að menntun borgi sig á Íslandi
Vanmat á menntun á Íslandi er ekki einföld afleiðing kjarasamninga. Vandinn er dýpri en svo og lausnirnar snerta menntastefnu, atvinnustefnu og viðhorf samfélagsins. Ef takast á að meta menntun til launa á Íslandi þarf margt að koma til:
- Atvinnustefna og menntastefna sem þjónar þörfum framtíðarinnar
Menntun á ekki að vera tákn um metnað – heldur raunverulegur fjárhagslegur ávinningur fyrir einstaklinga. Til þess þarf að samstillt átak gegn færnimisræmi og aðgerðir til að auka framleiðni. Tryggja þarf:
- Aukin gæði náms á öllum skólastigum.
- Að fólki sé beint á réttar brautir í framhaldsskóla og háskóla; fjölga þarf þeim sem velja iðn- og starfsnám að loknum grunnskóla og og útskrifa fleiri úr háskóla til starfa í verðmætum skortgreinum – eins og í heilbrigðis- og kennslustörfum hjá hinu opinbera og í hátækni- og hugverkagreinum á almennum markaði.
- Auka þarf vægi hátækni- og hugverkaiðnaðar í verðmætasköpun á almennum markaði
- Launastefna sem ákveðin er í samtali og tekur mið af svigrúmi atvinnugreina
ASÍ hefur einhliða ákveðið launastefnu fyrir allan vinnumarkaðinn, án samráðs við stéttarfélög opinberra starfsmanna og án tillits til framleiðni, ábyrgðar og fjárhagslegs svigrúms einstakra atvinnugreina. Samtal þarf að eiga sér stað um merkingu launahækkana og ábyrgð þeirra sem semja á almennum og opinberum vinnumarkaði.
- Viðhorfsbreyting til mikilvægis menntunar
Menntun er ekki einkamál einstaklingsins heldur grundvallarforsenda samfélagslegra framfara. Það þarf að endurspeglast í opinberri stefnumörkun, í kjarasamningum og í almennum umræðum um verðmæti menntunar. Á meðan fjárhagslegur ávinningur menntunar er óljós, minnkar hvati til náms og dregur úr því að sérfræðimenntað starfsfólk nýtist sem drifkraftur framfara.