Beint í efni
1. maí 2024
Fréttir

Evr­ópu­met! – Há­skóla­mennt­un minnst met­in á Ís­landi

Höfundur

Vilhjálmur Hilmarsson

Vilhjálmur Hilmarsson

hagfræðingur Visku

Íslendingar fá minnst fyrir háskólagráðuna af 35 Evrópuþjóðum – þegar horft er til tekjumunar milli háskólamenntaðra og grunnskólamenntaðra. Virði háskólamenntunar á Íslandi, mælt í þessum tekjumun er aðeins um fjórðungur af Evrópumeðaltalinu. Komið er að endastöð fyrir krónutöluhækkanir á vinnumarkaði – fyrir launafólk og fyrirtæki.

Virði háskólamenntunar á Íslandi – minnst í Evrópu

Í samanburði við 35 Evrópuríki er tekjumunur háskólamenntaðra og grunnskólamenntaðra minnstur hér á landi. Mælist hann aðeins 21% að meðaltali hjá fólki á aldrinum 18–64 ára*, samanborið við 76% að meðaltali innan Evrópu og 35% að meðaltali á hinum Norðurlöndunum. Þetta þýðir að fjárhagslegur ávinningur af háskólamenntun á Íslandi, mælt í þeim tekjuauka sem menntunin veitir, er aðeins um fjórðungur af Evrópumeðaltalinu. Niðurstaðan er skýr: Ungt fólk á Íslandi hefur miklu minni hvata en aðrir Evrópubúar til að fara í háskóla, ef þau vilja starfa á Íslandi til frambúðar.

2000–2023: 1% kaupmáttaraukning fyrir meistaragráðu en 45% fyrir grunnmenntun

Kaupmáttur heildartekna hjá fólki með meistaragráðu hefur aðeins aukist um 1% á þessari öld, frá 2000 til 2023, á sama tíma og kaupmáttur grunnskólamenntaðra jókst um 45%. Hagvöxtur á sama tímabili, 43% á hvern íbúa, hefur því að fullu birst í tekjum grunnskólamenntaðra að meðaltali en ekki að neinu leyti í tekjum fólks með meistaragráðu. Sjá mynd að neðan.

2019–2024: Tugprósenta munur milli háskólamenntaðra og annarra á opinberum markaði

Krónutöluhækkanir á opinbera markaðnum 2019–2024 hafa valdið tugprósenta gliðnun í þróun kaupmáttar milli láglaunahópa og háskólamenntaðra. Á meðan láglaunahópar hjá Reykjavík hlutu 42% aukningu í kaupmætti á tímabilinu 2019–2024 dróst kaupmáttur kennara hjá ríkinu saman um 1% og kaupmáttur hjá BHM ríki jókst aðeins um 2%. Þróunin sýnir svart á hvítu að háskólamenntaðir hafa dregist langt aftur úr í kjarasamningum – m.a. vegna skilyrðislausrar kröfu ASÍ og BSRB um krónutöluhækkanir á öllum vinnumarkaði og stuðnings stjórnvalda við þá kröfu.

2017–2024: Krónutöluhækkanir hafa hlíft arðbærum atvinnugreinum á almenna markaðnum

Krónutöluhækkanir síðustu ára hafa leitt til meiri launahækkana í láglaunagreinum á almennum markaði en í atvinnugreinum með hátt hlutfall sérfræðinga. Í raun bendir margt til þess að krónutöluhækkanir hafi hlíft arðbærustu atvinnugreinunum á almenna markaðnum en íþyngt þeim atvinnugreinum sem síst geta borið miklar launahækkanir.

Launahækkanir í upplýsingatækni voru t.a.m. aðeins brot af framleiðniaukningu á tímabilinu 2017–2024, 8% launahækkun á móti 51% framleiðniaukningu. Sama má segja um fjármála- og vátryggingastarfsemi en laun þar lækkuðu um 5% á tímabilinu 2017–2024 á sama tíma og framleiðni jókst um 22%. Í þeim greinum sem greiða lægri laun t.a.m. framleiðsluiðnaði og byggingariðnaði hafa laun hins vegar hækkað umfram framleiðni. Svigrúm til launahækkana hefur einfaldlega verið mun meira en eiginlegar launahækkanir í mörgum atvinnugreinum sérfræðinga en komið er að þolmörkum í mörgum láglaunagreinum.

Þetta þurfum við að gera til að menntun borgi sig á Íslandi

Vanmat á menntun á Íslandi er ekki einföld afleiðing kjarasamninga. Vandinn er dýpri en svo og lausnirnar snerta menntastefnu, atvinnustefnu og viðhorf samfélagsins. Ef takast á að meta menntun til launa á Íslandi þarf margt að koma til:

  1. Atvinnustefna og menntastefna sem þjónar þörfum framtíðarinnar

Menntun á ekki að vera tákn um metnað – heldur raunverulegur fjárhagslegur ávinningur fyrir einstaklinga. Til þess þarf að samstillt átak gegn færnimisræmi og aðgerðir til að auka framleiðni. Tryggja þarf:

  • Aukin gæði náms á öllum skólastigum.
  • Að fólki sé beint á réttar brautir í framhaldsskóla og háskóla; fjölga þarf þeim sem velja iðn- og starfsnám að loknum grunnskóla og og útskrifa fleiri úr háskóla til starfa í verðmætum skortgreinum – eins og í heilbrigðis- og kennslustörfum hjá hinu opinbera og í hátækni- og hugverkagreinum á almennum markaði.
  • Auka þarf vægi hátækni- og hugverkaiðnaðar í verðmætasköpun á almennum markaði
  1. Launastefna sem ákveðin er í samtali og tekur mið af svigrúmi atvinnugreina

ASÍ hefur einhliða ákveðið launastefnu fyrir allan vinnumarkaðinn, án samráðs við stéttarfélög opinberra starfsmanna og án tillits til framleiðni, ábyrgðar og fjárhagslegs svigrúms einstakra atvinnugreina. Samtal þarf að eiga sér stað um merkingu launahækkana og ábyrgð þeirra sem semja á almennum og opinberum vinnumarkaði.

  1. Viðhorfsbreyting til mikilvægis menntunar

Menntun er ekki einkamál einstaklingsins heldur grundvallarforsenda samfélagslegra framfara. Það þarf að endurspeglast í opinberri stefnumörkun, í kjarasamningum og í almennum umræðum um verðmæti menntunar. Á meðan fjárhagslegur ávinningur menntunar er óljós, minnkar hvati til náms og dregur úr því að sérfræðimenntað starfsfólk nýtist sem drifkraftur framfara.