Viska fjölmennti á aðalfund BHM
Höfundur
Gauti Skúlason
47 fulltrúar Visku sóttu aðalfund BHM sem haldinn var í gær á Grand Hótel í Reykjavík. Fundurinn gekk vel fyrir sig og voru hefðbundin aðalfundastörf á dagskrá.
Á fundinum var skýrsla framkvæmdastjórnar lögð fram, reikningar bandalagsins bornir upp til samþykktar, lagabreytingar lagðar fram og sitthvað fleira.
Þá samþykkti fundurinn eftirfarandi ályktun um stöðu háskólamenntaðra.
Aðalfundur BHM lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu háskólamenntaðra. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hjá launafólki með meistaragráðu hefur staðið í stað í rúmlega tvo áratugi og 41% háskólamenntaðra eiga erfitt með að ná endum saman og hlutfallið er enn hærra meðal barnafólks, samkvæmt lífskjarakönnun BHM.
Háskólamenntaðar stéttir sætta sig ekki við áframhaldandi kaupmáttarstöðnun launa eða rýrnun ráðstöfunartekna með aukinni skattbyrði. Meginhluti af skattbyrðinni hvílir nú þegar á þeim hópum þar sem háskólamenntaðir eru í meirihluta.
Aðalfundur BHM skorar á stjórnvöld að horfast í augu við þann efnahags- og samfélagslega vanda sem leiðir af vanmati menntunar til launa á Íslandi. Lækka þarf skatta á launafólk með millitekjur og efri millitekjur, hækka skerðingarmörk barnabóta og létta greiðslubyrði námslána.
Jafnframt skorar fundurinn á opinbera launagreiðendur að mæta til kjaraviðræðna með nýja sýn og vilja til að meta framlag háskólamenntaðra að verðleikum í launum og starfsskilyrðum. Menntun er grunnforsenda velsældar og efnahagslegs stöðugleika í íslensku samfélagi um alla framtíð.