Beint í efni
Félagsnet

Fé­lagsnet skrif­andi stétta

Félagsnet skrifandi stétta og myndhöfunda bóka heldur utan um félagsfólk Visku sem starfar sem rithöfundar, handritshöfundar, leikskáld, þýðendur og myndhöfunda bóka; þeirra sem vinna með texta í sköpun sinni, óháð bókmenntagreinum eða birtingarformi verka, sem og höfunda sem starfa við aðrar atvinnugreinar. 

Markmið félagsnetsins er að efla faglegt starf þess fólks innan Visku, stuðla að aukinni endurmenntun félagsfólks og styðja við rannsóknir á stöðu höfunda á vinnumarkaði, með sérstöku tilliti til sjálfstætt starfandi einstaklinga.

Hver erum við?

Til skrifandi stétta tilheyra öll sem sinna skapandi skrifum, m.a. rithöfundar og þýðendur, handritshöfundar, leikskáld og myndhöfundar bókmennta, svo eitthvað sé nefnt. Í flestum tilfellum er tungumálið þeirra atvinnutæki og fjöregg. Þannig skipa verk þeirra mikilvægan sess í menntun og menningu þjóðarinnar.

Höfundar, þýðendur og myndhöfundar eru sérfræðingar á sínu sviði og eru rétthafar bókmenntaverka, kvikmyndahandrita og leikverka. Þeir skrifa og þýða bækur, ýmiskonar handrit og myndlýsa bókmenntaverk. Auk þess eru þeir iðulega ráðnir til að vinna ýmis önnur bókmenntatengd verkefni: ritstjórn, yfirlestur, semja ræður, erindi og pistla, lesa upp og kynna verk sín, halda námskeið o.s.frv.

Starfandi höfundar sem greiða í Visku geta skráð sig í félagsnetið en með eflingu þess er unnt að greina þarfir og bæta kjör rithöfunda á íslenskum vinnumarkaði.

Talsmaður rithöfunda í fulltrúaráði Visku er Margrét Tryggvadóttir formaður RSÍ.