Vinnutími
Í kjarasamningum Visku við ríki og sveitarfélög 2019-2020 var samið um heimild til að stytta vinnuviku dagvinnufólks í allt að 36 virkar vinnustundir á viku.
Í kjarasamningum aðildarfélaga BHM sem voru undirritaðir veturinn 2019-2020 var kveðið á um heimild til að gera breytingar á skipulagi vinnutíma dagvinnufólks og stytta vinnuvikuna í allt að 36 virkar vinnustundir á viku. Samið var um að styttingin skyldi taka gildi í síðasta lagi 1. janúar 2021.
Meginmarkmið breytinganna var að stuðla að umbótum í starfsemi ríkisstofnana, bæta vinnustaðamenningu og auka samræmingu vinnu og einkalífs án þess að draga úr skilvirkni og gæðum þjónustu.
Stytting vinnutíma í dagvinnu er útfærð á hverjum vinnustað fyrir sig. Útfærslan getur því verið með mismunandi hætti og ræðst af því hvað hentar vinnustaðnum og starfsmönnum þess best.
Með samkomulagi meirihluta starfsfólks á viðkomandi stofnun um aðlögun vinnutíma að þörfum stofnunar og starfsfólks, með hliðsjón af eðli starfsemi, skipulagi og/eða öðru því sem gefur stofnun sérstöðu, er heimilt að stytta vinnuvikuna í allt að 36 virkar vinnustundir á viku.
Við hámarks styttingu (4 stundir) verður grein 3.1 um matar- og kaffitíma á dagvinnutímabili óvirk.
Við lágmarks styttingu (13 mínútur á dag eða 65 mínútur á viku) haldast matar- og kaffitímar óbreyttir samkvæmt kjarasamningi.
Upplýsingar um styttingu vinnuvikunnar má einnig finna á betrivinnutimi.is
Vinnuvika dagvinnufólks í dag er 40 stundir en heimilt er að stytta hana um fjórar klukkustundir á viku, eða í allt að 36 stundir, án launaskerðingar.
Breytingar á vinnufyrirkomulagi og fækkun vinnustunda eru skipulagðar á hverjum vinnustað með samtali starfsfólks og stjórnenda.
Útfærslan tekur mið af starfsemi vinnustaðarins og getur því verið með ólíkum hætti milli vinnustaða. Starfsemi einstakra deilda/sviða innan sömu stofnunar getur einnig verið ólík og því er ekki sjálfgefið að sama vinnutímafyrirkomulag henti öllum innan sömu stofnunar eða fyrirtækis.
Dagvinna samkvæmt ráðningarsamningi er unnin á tímabilinu kl. 08:00-17:00 frá mánudegi til föstudags. Forstöðumanni stofnunar er heimilt að verða við óskum einstakra starfsmanna um rýmkun á dagvinnutímabili og um ákveðið frjálsræði um hvenær vinnuskyldu er gegnt.
Dagvinnutímabilið er haft rýmra en hin daglega vinnuskylda og býður atvinnurekendum og starfsfólki upp á ákveðinn sveigjanleika við ákvörðun eða samninga um hvenær vinna skuli hefjast að morgni og ljúka að kvöldi.
Fjöldi vinnustunda í dagvinnu tekur mið af samkomulagi starfsfólks um styttingu vinnuvikunnar á hverjum vinnustað.
Útfærsla á styttingu vinnuvikunnar getur verið með ýmsu móti.
Eftirfarandi útfærslur á breyttu skipulagi vinnutíma eru meðal annars mögulegar:
A. Stytting á hverjum degi
- Stytting á virkum vinnutíma sem nemur 13 mínútum á dag. (65 mínútur/5 dagar)
- 35 mínútur í matartíma á dag.
- Vinnutími kl. 8-15:47.
(Virkur vinnutími á viku samtals 36 stundir.)
B. Stytting einu sinni í viku
- Samanlögð stytting á virkum vinnutíma sem nemur 65 mínútum á viku. (65 mínútur/1 dagur)
- 35 mínútur í matartíma á dag.
- Vinnutími mánudaga til fimmtudaga kl. 8-16.
- Vinnutími á föstudögum kl. 8-14:55.
(Virkur vinnutími á viku samtals 36 stundir.)
C. Stytting útfærð nánar á stofnun
- Samanlögð stytting á virkum vinnutíma sem nemur 65 mínútum á viku (nánar útfært á stofnun).
- 0-35 mínútur í matartíma á dag. (Allt að 2.55 á viku til útfærslu á stofnun.)
- Vinnutími mánudaga til föstudaga nánar útfærður á stofnun.
- Vikuleg viðverustytting allt að (1.05 + 2.55) = 4
(Virkur vinnutími á viku samtals 36 stundir.)
Samkvæmt almennri skilgreiningu telst yfirvinna sú vinna sem unnin er utan tilskilins dagvinnutímabils eða umfram umsamdar vaktir, sé um vaktafyrirkomulag að ræða.
Að meginstefnu til er launafólki á almennum vinnumarkaði ekki skylt að vinna yfirvinnu þótt eftir því sé leitað, nema það leiði af ákvæðum kjarasamnings, vegna samkomulags um vinnufyrirkomulag eða vegna sérstöðu starfa, sbr. m.a. dóm Félagsdóms frá 22. maí 1986. Þá kunna að vera ákvæði í ráðningarsamningi um skyldu til yfirvinnu, auk þess sem lög kunna að mæla fyrir um yfirvinnuskyldu. Í þeim efnum er veigamest sú skylda, sem lögð er á starfsmenn ríkisins samkvæmt 2. mgr. 17. gr. starfsmannalaga, til að vinna þá yfirvinnu, sem forstöðumaður telur nauðsynlega.
Meginmarkmið samkomulags um styttingu vinnuvikunnar 2019-2020 í allt að 36 virkar vinnustundir á viku var að stytta heildarvinnutíma en ekki að hann færist í yfirvinnu. Þannig á stytting vinnuvikunnar almennt ekki að hafa áhrif á yfirvinnu dagvinnufólks.
Laun starfsmanna eiga ekki að lækka við styttingu vinnutíma en að sama skapi er ein helsta forsenda styttingarinnar að hún verði ekki til þess að auka útgjöld vinnustaðarins.
Um tímakaup í yfirvinnu er fjallað í grein 1.5. í kjarasamningi BHM.
Yfirvinnu er skipt í yfirvinnu 1 (YV1) og yfirvinnu 2 (YV2).
Tímakaup YV1 er 0,9385% af mánaðarlaunum og tímakaup YV2 er 1,0385% af mánaðarlaunum.
Ríkið
- YV1 er greitt milli 8 og 17 alla virka daga.
- YV2 er greitt eftir það og um helgar og sérstaka frídaga.
- Tímakaup YV2 greiðist jafnframt fyrir vinnu umfram 40 stundir á viku. Vakin er athygli á því að þetta er ekki í samræmi við orðalag kjarasamningsins, heldur urðu aðilar sammála um breytta útfærslu á samningstímanum.
Reykjavíkurborg
- YV1 er greitt milli 8 og 17 alla virka daga. YV2 er greitt eftir það og um helgar.
Sveitarfélög
- YV1 er greitt milli 8 og 17 alla virka daga. YV2 er greitt eftir það og um helgar. Tímakaup YV2 greiðist jafnframt fyrir vinnu umfram 40 tíma (fullt starf).
Í flestum kjarasamningum er ákvæði um frí í stað yfirvinnu.
Hjá hinu opinbera er starfsmönnum heimilt með samkomulagi við vinnuveitanda að safna frídögum vegna yfirvinnu á þann hátt að yfirvinnutímar komi til uppsöfnunar og frítöku en yfirvinnuálagið er greitt við næstu reglulegu útborgun. Minnt skal á að ávallt ber að greiða yfirvinnuálagið.
Til viðbótar venjulegum vinnutíma geta komið bakvaktir sem ákveðnar eru af yfirmanni. Með bakvakt er átt við að starfsmaður sé ekki við störf en er reiðubúinn að sinna útkalli. Það telst ekki bakvakt ef starfsmaður dvelst á vinnustað að beiðni yfirmanns.
Bakvaktargreiðsla eða bakvaktarálag er vaktaálag sem reiknast sem hlutfall af dagvinnukaupi. Hlutfallið er mismunandi eftir tíma sólarhrings og hvaða vikudag er um að ræða.
Greiðsla fyrir bakvaktir af dagvinnukaupi starfsmanns skal greiða með eftirtöldum hætti:
- 33,33% kl. 17:00-24:00 mánudaga til fimmtudaga
- 45,00% kl. 17:00-24:00 föstudaga
- 45,00% kl. 00:00-08:00 mánudaga
- 33,33% kl. 00:00-08:00 þriðjudaga til föstudaga
- 45,00% kl. 00:00-24:00 laugardaga, sunnudaga og sérstaka frídaga
- 90,00% kl. 00:00-24:00 stórhátíðardaga, sbr. gr. 2.1.4.3
Brot úr klst. greiðist hlutfallslega. Um greiðslur fyrir útköll á bakvakt gilda gr. 2.3.3.1 og 2.3.3.2.
Í kjarasamningum aðildarfélaga BHM við hið opinbera eru ákvæði um frí fyrir reglubundna bakvakt, sem skipulögð er allt árið. Frí þetta svarar 1 klst. fyrir hverja 15 klst. á bakvakt en getur að hámarki orðið 80 stundir. Taka bakvaktarfrís fer fram árið eftir ávinnsluna og er oftast miðað við almanaksárið, 1. janúar til 31. desember ár hvert. Þess eru líka dæmi að notað sé orlofsárið, þ.e. 1. maí til 30. apríl. Leyfið má veita hvenær árs sem er, en ekki er heimilt að flytja það á milli ára.
Í kjarasamningum á opinberum vinnumarkaði er að finna heimildarákvæði um annað fyrirkomulag greiðslna fyrir bakvaktir. Þá er t.d. heimilt að semja um ákveðinn fjölda klukkustunda fyrir bakvaktir án tillits til tímalengdar.
Vinnuveitandi hefur ákvörðunarvald um tilhögun og útfærslu vinnutíma starfsfólks, þ.m.t. vaktavinnu, innan þeirra marka sem kveðið er á um í lögum og kjarasamningum. Í því efni reynir ekki aðeins á skilgreiningu daglegs og vikulegs vinnutíma, heldur einnig hvíldartímaákvæði, reglur um neysluhlé, frídaga o.fl.
Flestar ríkisstofnanir nota skráningarkerfið Vinnustund sem heldur utan um tíma- og fjarvistarskráningar starfsfólks í dagvinnu- og vaktavinnu.
Kerfið skráir einnig réttindaávinnslu vegna orlofs, frítöku vegna hvíldartímareglna o.fl.
Ríki og sveitarfélög
Breytingar á skipulagi vaktavinnu tóku gildi 1. maí 2021.
Samkomulagið felur í sér að vinnuvika vaktavinnufólks styttist úr 40 stundum í 36 virkar stundir, fyrir fullt starf. Frekari stytting í allt að 32 stundir er möguleg og grundvallast á vægi vinnustunda. Launamyndun vaktavinnufólks breytist og tekur meira mið af vaktabyrði en áður.
Vaktaálagsflokkum fjölgar og greiddur er sérstakur vaktahvati sem tekur mið af fjölda og fjölbreytileika vakta.
Stór hluti vaktavinnufólks vinnur hlutastarf og eru breytingarnar til þess fallnar að auka möguleika vaktavinnufólks til að vinna hærra starfshlutfall. Hefur það í för með sér hærri laun og ævitekjur.
Nánari upplýsingar um breytingar á vaktavinnu eru á betrivinnutimi.is
Vaktaálag
Vaktaálager greitt fyrir vinnu utan dagvinnutíma með eftirfarandi hætti:
· 33,33% kl. 17:00 – 24:00 mánudaga til fimmtudaga
· 55,00% kl. 17:00 – 24:00 föstudaga
· 65,00% kl. 00:00 – 08:00 þriðjudaga til föstudaga
· 55,00% kl. 08:00 – 24:00 laugardaga, sunnudaga og sérstaka frídaga
· 75,00% kl. 00:00 – 08:00 laugardaga, sunnudaga, mánudaga og sérstaka frídaga
· 90,00% kl. 00:00 – 24:00 stórhátíðardaga, þó þannig að á frá kl. 16:00 til 24:00 á aðfangadag og gamlársdag og kl. 00:00 til 08:00 á jóladag og nýársdag er 120% álag.
Brot úr klukkustund greiðist hlutfallslega.
Vaktskrá
Samkvæmt grein 2.6.2 kjarasamnings skal vaktskrá er sýnir væntanlegan vinnutíma hvers starfsmanns lögð fram mánuði áður en fyrsta vakt samkvæmt skránni hefst nema samkomulag sé við starfsmenn um skemmri frest.
Ef vaktskrá er breytt með skemmri fyrirvara en 24 klst., skal viðkomandi starfsmanni greitt aukalega 3 klst. í yfirvinnu. Sé fyrirvarinn 24-168 klst. (ein vika) skal greiða 2 klst. í yfirvinnu. Hér er eingöngu átt við breytingu á skipulagðri vakt en ekki aukavakt. Taki starfsmaður vakt umfram vinnuskyldu, með minna en 24 klst. fyrirvara á tímabilinu kl. 17:00-24:00 á föstudögum, kl. 24:00-08:00 mánudaga til föstudaga, kl. 00:00-24:00 laugardaga, sunnudaga og sérstaka frídaga, sbr. gr. 2.1.4.2 miðað við 8 klst. vakt, skal greiða 2 klst. í yfirvinnu og hlutfallslega fyrir lengri eða styttri vaktir.
Hvíldartímareglur
Við skipulag vaktavinnu og gerð vaktskrár er mikilvægt að hafa í huga meginreglur hvíldartímalöggjafar um 11 tíma hvíld á sólarhring, vikulegan frídag og 48 klst. hámarksvinnuskyldu á viku. Æskilegt er að vaktir séu skipulagðar réttsælis eftir sólarhringnum og líkamsklukkunni, þannig að fyrst komi morgunvakt, svo kvöldvakt, svo næturvakt og svo hvíld.
Í leiðbeiningum stýrihóps um vaktavinnu er lögð áhersla á að framangreind hvíldartímaákvæði séu höfð í huga við ákvörðun um lengd vakta.
Samband íslenskra sveitarfélaga hefur birt kynningarefni á vef sínum sem helgað er breytingum á vaktavinnu.
Almennur vinnumarkaður
Fjallað er um vaktavinnu, vaktaálag o.fl. í grein 2.6 í kjarasamningi Visku og SA.
Þar segir að heimilt sé með samkomulagi við starfsmann að skipuleggja vinnu þannig að unnið sé á vöktum.
Vaktir skulu ákveðnar að jafnaði fyrir fjórar vikur í senn. Vaktskrá, er sýnir væntanlegan vinnutíma hvers starfsmanns, skal lögð fram mánuði áður en fyrsta vakt samkvæmt skránni hefst, nema samkomulag sé við starfsmann um skemmri frest.
Starfsfólk í dagvinnu rétt á 30 mínútna matarhléi á tímabilinu kl. 11:30-13:30 og telst hann ekki til vinnutíma. Þá er kveðið á um tvo kaffitíma, 15 mínútur og 20 mínútur, sem teljast til vinnutíma og því launaðir. Styðst sú útfærsla við 4. og 5. gr. laga um 40 stunda vinnuviku.
Samkomulag á vinnustað um styttingu vinnuvikunnar í allt að 36 virkar vinnustundir á viku hefur áhrif á fyrirkomulag neysluhléa.
Náist samkomulag á stofnun um hámarks styttingu vinnutíma, þ.e. um 4 klst. á viku, verður gr. 3.1 kjarasamnings um matar- og kaffitíma óvirk. Starfsfólk hefur engu að síður heimild til taka sér hlé til að ná sér í kaffibolla eða borða hádegismat. Um formlegt hlé í skilningi kjarasamnings er hins vegar ekki að ræða. Það þýðir að starfsmaðurinn getur ekki ráðstafað þeim tíma að vild, farið úr húsi eða gert það sem honum sýnist á þeim tíma.
Við lágmarks styttingu (13 mínútur á dag eða 65 mínútur á viku) haldast matar- og kaffitímar óbreyttir samkvæmt kjarasamningi.
Ákvæði um fæði og mötuneyti verða óbreytt sem þýðir að starfsfólk á eftir sem áður að hafa aðgang að matstofu eftir því sem við verður komið eða fá greidda fæðispeninga.
Um neysluhlé í yfirvinnu gildir eftirfarandi:
Matartími er 1 klst. kl. 19:00-20:00 að kvöldi, kl. 03:00-04:00 að nóttu og á tímabilinu kl. 11:30-13:30 á frídögum skv. gr. 2.1.4.
Matartímar á yfirvinnutímabili teljast til vinnutímans og því greiddur tími.
Kaffitímar: kl. 21:00-21:20, kl. 00:00-00:20, kl. 05:40-06:00 og kl. 07:45-08:00.
Matar- og kaffitímar á yfirvinnutímabili sem unnir eru, greiðast sem viðbót við yfirvinnutíma og auk þess kaffitímar í yfirvinnu, sé unnið að fremri mörkum þeirra.
Í kjarasamningi SA og Visku segir í grein 2.1.1 að samkomulag ráði lengd og fyrirkomulagi neysluhléa og eftir atvikum annarra hléa frá vinnu.
Tekið er fram að hádegishlé, umfram greidd neysluhlé, teljist ekki til greidds vinnutíma.