Beint í efni
Allt um þín réttindi

Rétt­indi við lok starfsæv­inn­ar

Að ýmsu er að huga þegar kemur að starfslokum en mismunandi er eftir því hvar á vinnumarkaðinum fólk starfar hvernig réttindum er háttað.

Ríkið

Í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna er gert ráð fyrir því að starfsmanni sem er að nálgast 70 ára aldur sé sagt upp störfum með formlegum hætti, sbr. 2. mgr. 43. gr. starfsmannalaga. Við meðferð máls og tilkynningu um starfslok þarf að gæta að ákvæðum í kjarasamningi um lengd uppsagnarfrests viðkomandi starfsmanns.

Dæmi: Starfsmaður hefur þriggja mánaða uppsagnarfrest. Hann verður 70 ára þann 5. maí. Starfslok hans ættu því að verða á mánaðamótum maí - júní. Til þess að tryggja starfslok hans á þessum tíma þarf að segja honum upp störfum í febrúar þannig að uppsagnarfresturinn verði liðinn í lok maímánaðar, þ.e. þrír heilir almanaksmánuðir (mars, apríl og maí).

Reykjavíkurborg

Starfsmaður Reykjavíkurborgar lætur af starfi eigi síðar en um næstu mánaðarmót eftir að hann hefur náð 70 ára aldri án sérstakrar uppsagnar, sbr. grein 14.11 í kjarasamningi við Reykjavíkurborg.

Heimilt er yfirmanni að endurráða mann, sem náð hefur 70 ára aldri og látið hefur af föstu starfi hjá Reykjavíkurborg í annað eða sama starf á tímavinnukaupi, allt að hálfu starfi, án þess að það hafi áhrif á rétt hans til töku lífeyris. Starfsmaður, sem óskar að ráða sig til vinnu eftir 70 ára aldur samkvæmt þessum skilmálum, skal sækja um það skriflega til yfirmanns með 3ja mánaða fyrirvara.

Starfsmanni skal hafa borist svar innan mánaðar frá umsókn. Sé unnt að verða við ósk starfsmanns skal ráðning gilda í allt að tvö ár til fyrstu mánaðarmóta eftir að 72 ára aldri er náð, nema annar hvor aðili segi ráðningunni upp með þriggja mánaða uppsagnarfresti.

Ákvörðun um ráðningu skal tekin af borgarstjóra að fenginni umsögn yfirmanns.

Sveitarfélög

Starfsmaður lætur af starfi sínu næstu mánaðamót eftir að hann nær 70 ára aldri án sérstakrar uppsagnar.

Rétt er að senda viðkomandi starfsmanni skriflega tilkynningu um starfslok vegna aldurs með þriggja til sex mánaða fyrirvara, sbr. grein 11.1.7.1 í kjarasamningi aðildarfélaga BHM og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Almennur vinnumarkaður

Almennt er miðað við að á almennum vinnumarkaði starfi fólk fram að eftirlaunaaldri, sem getur verið misjafn eftir ákvæðum í ráðningarsamningi, mannauðsstefnu fyrirtækis eða öðru samkomulagi við viðkomandi starfsmann. Algengt er að fólk hefji töku lífeyris um 67 ára aldur en sumir starfa þó lengur og aðrir skemur.

Í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins (SA) og aðildarfélaga BHM er ekki mælt fyrir um starfslok vegna aldurs með sama hætti og hjá ríki og sveitarfélögum. Af því leiðir að almenn ákvæði um uppsögn ráðningarsamnings og uppsagnarfrest gilda, sbr. grein 5.3.