Hvíldartími
Um daglegan og vikulegan hvíldartíma starfsfólks og hámarksvinnutíma á viku eru ákvæði í IX. kafla laga um aðbúnað og hollustu á vinnustöðum og kjarasamningum Visku.
Reglur um vinnu- og hvíldartíma starfsfólks byggja á tilskipun 2003/88/EB um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma. Tilskipunin mælir fyrir um lágmarkskröfur um öryggi og heilbrigði við skipulag vinnutíma, að því er varðar daglegan hvíldartíma, hlé, vikulegan hvíldartíma, vikulegan hámarksvinnutíma, árlegt orlof og þætti varðandi næturvinnu og vaktavinnu. Þessi ákvæði voru upphaflega innleidd hér á landi með vinnutímasamningi ASÍ og VSÍ dags. 30. desember 1996. Samsvarandi samningar voru gerðir í janúar 1997 milli ASÍ, BHM, BSRB og KÍ annars vegar og ríkisins, Reykjavíkurborgar og launanefndar sveitarfélaga hins vegar.
Hvíldartímaákvæðin eru fyrst og fremst á sviði vinnuverndar. Vinnutímahugtakið sem kemur fyrir í þessum reglum liggur til grundvallar rétti fólks til fullnægjandi hvíldar frá störfum, bæði daglega og vikulega. Hugtakið hefur hér sjálfstæða og aðra merkingu en þegar það kemur fyrir í reglum um ákvörðun og greiðslu launa fyrir dag- og yfirvinnu.
Með hugtakinu virkur vinnutími er átt við tímann sem starfsmaður er við störf, er til taks fyrir atvinnurekandann og innir af hendi störf sín eða skyldur.
Við túlkun á því hvað telst virkur vinnutími ber að horfa til skýringa á hugtakinu sem fram koma í dómum Evrópudómstólsins og EFTA-dómstólsins.
Í dómi EFTA-dómstólsins í máli nr. E-19/16 segir að ferðatími starfsmanns til og/eða frá starfsstöð, sem ekki er hin hefðbundna eða fasta starfsstöð, geti talist til virks vinnutíma í skilningi vinnutímatilskipunarinnar.
Bent var á að ferðir starfsmanns sem farnar eru í þeim tilgangi að framkvæma ákveðið verk fyrir vinnuveitanda utan fastrar eða hefðbundinnar starfsstöðvar væru forsenda þess að sá starfsmaður gæti innt verkið af hendi. Umfang þeirrar vinnu sem starfsmaður innti af hendi væri hins vegar ekki hugtaksskilyrði vinnutímahugtaksins. Þá kom fram að viðkomandi starfsmaður hefði þurft að hlíta fyrirmælum vinnuveitanda síns meðan á nauðsynlegum ferðatíma stóð og teldist þar af leiðandi vinnuveitanda sínum innan handar þann tíma.
Um skyldu vinnuveitanda til að skrá vinnutíma starfsfólks vegna hvíldartímaákvæða tilskipunarinnar er fjallað í dómi Evrópudómstólsins frá 14. maí 2019 í máli C-55/18 Obreras. Sjá einnig dóm Hæstaréttar frá 14. júní 2018 í máli 594/2017.
Hámarksvinnutími á viku skal að meðaltali ekki vera umfram 48 virkar vinnustundir að yfirvinnu meðtalinni.
Samkvæmt lögum er viðmiðunartímabil við útreikning á meðaltali vinnustunda fjórir mánuðir. Með kjarasamningi er hins vegar heimilt að reikna hámarksvinnutíma starfsmanna út frá viðmiðunartímabili sem er allt að sex mánuðir.
Vinnutíma skal haga þannig að á 24 stunda tímabili fái starfsmaður a.m.k. 11 klst. samfellda hvíld (daglegur hvíldartími). Meginreglan er að slíkur hvíldartími skal veittur strax í beinu framhaldi af vinnulotu.
Óheimilt er að skipuleggja vinnu þannig að vinnutími á 24 klst. tímabili fari umfram 13 klst.
Séu starfsmenn beðnir um að mæta til vinnu áður en 11 klst. eru liðnar af hvíldartíma skapast frítökuréttur sem nemur 1,5 klst. í dagvinnu fyrir hverja klst. sem skerðist af 11 klst. hvíldartíma.
Á skipulegum vaktaskiptum er heimilt að stytta samfellda lágmarkshvíld starfsmanna í allt að 8 klst. Þetta á t.d. við þegar starfsmaður skiptir af morgunvakt yfir á næturvakt samkvæmt skipulagi vaktskrár. Fráviksheimild þessi frá 11 klst. lágmarkshvíld á hins vegar ekki við þegar starfsmaður lýkur yfirvinnu og fer yfir á reglubundna vakt og öfugt.
Þar sem hér er um frávik frá meginreglunni um 11 klst. samfellda hvíld að ræða, verður að gera þá kröfu til vaktkerfis að það sé skipulagt þannig að skipti milli mismunandi tegunda vakta séu sem sjaldnast á vaktahring og að jafnaði reyni ekki á frávik þetta oftar en einu sinni í viku. Vinnan skal því skipulögð með sem jöfnustum hætti.
Við sérstakar aðstæður er heimilt að stytta samfellda lágmarkshvíld í allt að 8 klst. og lengja vinnulotu í allt að 16 klst., þ.e.a.s. við ófyrirsjáanleg atvik þegar bjarga þarf verðmætum. Ennfremur þegar almannaheill krefst þess og/eða halda þarf uppi nauðsynlegri heilbrigðis- eða öryggisþjónustu.
Sé heimildum til frávika frá daglegum hvíldartíma samkvæmt þessum lið beitt, skal starfsmaður fá samsvarandi hvíld í staðinn. Í beinu framhaldi af slíkri vinnulotu skal veita starfsmanni 11 klst. hvíld á óskertum launum sem hann annars hefði fengið.
Í 53. gr. b laga um aðbúnað og hollustuhætti er kveðið á um frávik frá reglum um daglegan hvíldartíma og reglum um næturvinnustarfsmenn vegna þjónustu sem veitt er á grundvelli 11. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018. Skýringar á þessu sérákvæði koma fram í frumvarpi til breytinga á lögum um aðbúnað og hollustuhætti.
Á hverju 7 daga tímabili skal starfsmaður hafa a.m.k. 1 vikulegan frídag sem tengist beint daglegum hvíldartíma og skal við það miðað að vikan hefjist á mánudegi.
Hann á því rétt á 35 klst. samfelldri hvíld (11+24) einu sinni í viku. Að svo miklu leyti sem því verður við komið, skal vikulegur hvíldardagur vera á sunnudegi.
Með samkomulagi við starfsmenn má fresta vikulegum hvíldardegi þar sem sérstakar ástæður gera slík frávik nauðsynleg. Í stað vikulegs hvíldardags koma þá tveir samfelldir hvíldardagar á hverjum tveimur vikum.
Starfsmaður sem venjulega vinnur a.m.k. þrjár klst. af daglegum vinnutíma sínum á næturvinnutímabili (milli 23:00 og 06:00) er skilgreindur sem næturvinnustarfsmaður. Eins gildir um starfsmann sem unnið hefur reglulega, samkvæmt fyrirfram ákveðnu skipulagi, minnst þrjár klst. af vinnuskyldu sinni á næturvinnutímabili, í einn mánuð. Sama gildir um starfsmann sem innir af hendi a.m.k. 40% af reglulegu ársframlagi sínu á næturvinnutíma.
Næturvinnustarfsmenn eiga rétt á heilbrigðisskoðun þeim að kostnaðarlausu áður en þeir hefja næturvinnu og með reglulegu millibili.
Vinnutími næturvinnu starfsmanna skal að jafnaði ekki vera lengri en átta klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili. Heimilt er að lengja vinnutíma næturvinnustarfsmanna þannig að hann verði að jafnaði allt að 48 vinnustundir á viku. Skal þá skipuleggja vinnuna þannig að vinnutíminn verði sem reglulegastur.
Viðmiðunartímabil við útreikning á meðalvinnutíma næturvinnustarfsmanna á viku skal vera sex mánuðir, janúar til júní og júlí til desember.
Næturvinnustarfsmenn sem gegna sérstaklega áhættusömum störfum eða störfum sem fela í sér mikið líkamlegt eða andlegt álag skulu ekki vinna lengur en átta klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili. Þá skulu næturvinnustarfsmenn sem eiga við heilsufarsvandamál að stríða sem sannanlega verða rakin til vinnutíma þegar kostur er færðir til í dagvinnustörf sem henta þeim.
Sjá nánar 52., 56. og 57. gr. laga um aðbúnað og hollustuhætti.