Beint í efni
Kjör og réttindi

Hvíld­ar­tími

Um daglegan og vikulegan hvíldartíma starfsfólks og hámarksvinnutíma á viku eru ákvæði í IX. kafla laga um aðbúnað og hollustu á vinnustöðum og kjarasamningum Visku.

Reglur um vinnu- og hvíldartíma starfsfólks byggja á tilskipun 2003/88/EB um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma. Tilskipunin mælir fyrir um lágmarkskröfur um öryggi og heilbrigði við skipulag vinnutíma, að því er varðar daglegan hvíldartíma, hlé, vikulegan hvíldartíma, vikulegan hámarksvinnutíma, árlegt orlof og þætti varðandi næturvinnu og vaktavinnu. Þessi ákvæði voru upphaflega innleidd hér á landi með vinnutímasamningi ASÍ og VSÍ dags. 30. desember 1996. Samsvarandi samningar voru gerðir í janúar 1997 milli ASÍ, BHM, BSRB og KÍ annars vegar og ríkisins, Reykjavíkurborgar og launanefndar sveitarfélaga hins vegar.

Hvíldartímaákvæðin eru fyrst og fremst á sviði vinnuverndar. Vinnutímahugtakið sem kemur fyrir í þessum reglum liggur til grundvallar rétti fólks til fullnægjandi hvíldar frá störfum, bæði daglega og vikulega. Hugtakið hefur hér sjálfstæða og aðra merkingu en þegar það kemur fyrir í reglum um ákvörðun og greiðslu launa fyrir dag- og yfirvinnu.