Beint í efni

Hópupp­sagn­ir

Auknar skyldur eru lagðar á vinnuveitendur sem áforma hópuppsagnir. Tilkynna ber fulltrúum starfsmanna um slík áform og hafa samráð um leiðir til að fækka í hópi þeirra sem til stendur að segja upp.

Lög um hópuppsagnir gilda um uppsagnir á starfsmönnum af ástæðum sem ekki tengjast hverjum einstökum þeirra þegar fjöldi starfsmanna sem sagt er upp á 30 daga tímabili er:

  1. að minnsta kosti 10 starfsmenn í fyrirtækjum sem venjulega hafa fleiri en 20 og færri en 100 starfsmenn í vinnu,
  2. að minnsta kosti 10% starfsmanna í fyrirtækjum sem venjulega hafa hið minnsta 100 starfsmenn en færri en 300 starfsmenn í vinnu, eða
  3. að minnsta kosti 30 starfsmenn í fyrirtækjum sem venjulega hafa 300 starfsmenn eða fleiri í vinnu.

Samkvæmt framansögðu verða því að liggja fyrir upplýsingar um:

i. fjölda starfsmanna sem vinna að jafnaði hjá viðkomandi fyrirtæki eða stofnun og

ii. fjölda þeirra starfsmanna sem áformað er að segja upp.

Upplýsingar um þessi atriði stýra því hvort áform vinnuveitanda um uppsagnir falli undir gildissvið laganna.

Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 11320/2021, sem varðaði uppsagnir hjá Sjúkratryggingum Íslands, var niðurstaðan að stjórnarmenn falli ekki undir starfsmannahugtak laganna. Af því leiðir að ekki ber að telja þá með við ákvörðun þess hve margir starfsmenn vinna að jafnaði hjá viðkomandi fyrirtæki eða stofnun.